139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

áform um breytingar á fiskveiðistjórnarlöggjöfinni.

[12:05]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Jón Bjarnason) (Vg):

Frú forseti. Mér finnst það koma úr hörðustu átt þegar hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson talar um aðra og nefnir leigubrask. Að mínu mati verður efnahagsstaðan næsta ár eitt það erfiðasta eftir efnahagshrunið bæði tæknilega og atvinnulega. Við heyrum um allt land um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu og niðurskurð í velferðarþjónustunni. Þá horfir maður til þess hvort við þessar aðstæður sé ekki réttlætanlegt að huga að því hvaða áhættu megi taka með því að auka tímabundið við aflaheimildir til að koma til móts við erfiðleikana. Ég minni á að vísað hefur verið til endurskoðunarhópsins einn af þáttunum sem þar eru nefndir, svokallaða pottaleið. Þetta er með tilvísun til hennar þó að hér sé fyrst og fremst um bráðabirgðaáform að ræða sem gildir aðeins í eitt eða tvö ár meðan verið er að vinna framtíðarskipan fiskveiðistjórnarmála. Það má öllum vera ljóst að þetta mun taka nokkurn tíma. Það er óvíst hvort það getur komið til framkvæmda á þessu ári.

Hverjar verða þær upphæðir? Ég segi: Það munar um allt, hvort það eru 2, 3 eða 4 milljarðar kr. sem hægt væri að fá með þessum hætti. Það munar um allt við þessar erfiðu aðstæður (Gripið fram í.) og ég trúi því að það verði samstaða á þinginu um að skoða þessar leiðir til að mæta þeim mikla efnahagsvanda sem við stöndum frammi fyrir vítt og breitt um landið. Við skoðum þá hvort það sé hægt að taka nokkra áhættu gagnvart (Forseti hringir.) fiskveiðiauðlindinni í þessu sambandi (Forseti hringir.) en það verður náttúrlega farið mjög vandlega yfir þá þætti, frú forseti.