139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

fundarstjórn.

[12:09]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Í umræðunum hér áðan féllu einstaklega ósmekkleg og óviðeigandi ummæli af vörum hv. þm. Jóns Gunnarssonar í garð hæstv. sjávarútvegsráðherra. Ég furða mig á því, frú forseti, að ekki skuli vera gerð athugasemd af hálfu forseta þegar komið er með persónulegar og rætnar athugasemdir í þessum ræðustóli sem beinast að einstaklingnum en hafa ekkert með málasvið þeirra eða starfsvettvang að gera. Ég, óbreyttur þingmaður í salnum, get ekki setið undir því að þurfa að hlusta á umræður sem fara í þennan farveg. Mér finnst þetta ekki aðeins meiðandi fyrir viðkomandi einstakling sem um er rætt, mér finnst þetta meiðandi fyrir þingið. Og fyrst forseti gerði ekki athugasemd við þetta ætla ég að taka mér það málfrelsi sem ég hef, frú forseti, til að gera alvarlega athugasemd við þetta og lýsa skömm á ummælum sem falla af þessum toga.