139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mjög margt hefur áunnist í málefnum fatlaðra á síðustu tveim áratugum enda veitti ekki af. Þannig jukust framlög til málefna fatlaðra á tíu ára tímabili, frá 1998–2007, um 12% á hverju ári, sem var langt umfram verðlag og töluvert umfram vöxt opinberrar þjónustu á þeim árum. Í kreppu er mjög mikilvægt að allir standi vörð um þennan hóp. Þetta er viðkvæmur hópur og við þurfum að gæta þess að hann verði ekki undir í sparnaðarráðstöfununum.

Á mörgum sviðum í þessari þjónustu hafa verið unnin kraftaverk en mjög margt er ógert eins og hér hefur komið fram. Eftir 92 daga taka sveitarfélögin við þessum málaflokki, þ.e. 15 þjónustusvæði, og er það vel. En þá er líka mjög mikilvægt að komnar séu samræmdar reglur og eftirlit með framkvæmdinni, annars er hætta á því að þjónustan verði ekki sambærileg á milli þessara svæða og eins innan svæðanna og að ekki verði tryggt að þjónustan verði skilvirk, þ.e. að við fáum mikla þjónustu fyrir framlögin.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar kemur fram, og það er kannski neikvæðasti þátturinn í ræðu minni, að frá 2004 hefur ráðuneytið verið að vinna að stefnumótun og það er ekki enn þá komið á hreint hvernig sú stefnumótun á að vera. Það er reyndar farið að vinna eftir drögum að stefnumótun og ég legg nú til að hv. Alþingi aðstoði hæstv. ráðherra, ef þörf er á, til að vinna að þessari stefnumótun því að mér sýnist að hún þurfi að vera til eftir mánuð. Ég get ekki séð að það sé hægt að fara út í þessa miklu breytingu með öll þessi þjónustusvæði o.s.frv. nema fyrir liggi einhver stefna.