139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:28]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Forseti. Það má segja sem svo að umræða um flutning málefna fatlaðra yfir til sveitarfélaganna hafi staðið yfir og verið í umræðu nánast í tvo áratugi og loksins hillir undir það núna um næstkomandi áramót að þetta verði að veruleika.

Hér hefur verið vikið töluvert að skýrslu Ríkisendurskoðunar sem kom út á haustdögum um málefni fatlaðra og mér þykir rétt að upplýsa það, þar sem ég hef setið í liðlega þrjú ár í þeirri verkefnisstjórn sem hefur verið með þetta undirbúningsferli, að varðandi til að mynda stefnumótun, að hún liggi ekki fyrir og hafi ekki verið lögfest, var það grunnforsenda af hálfu sveitarfélaganna að gengið yrði út frá gildandi lögum við yfirfærsluna. Í þeim efnum horfðu menn auðvitað til lærdóms og reynslu af yfirflutningi grunnskólans á sínum tíma, að menn vissu á hvaða forsendum og út frá hvaða grunni væri verið að flytja verkefnið yfir.

Ríkisendurskoðun gerði líka athugasemdir við það að þjónustumat væri ekki samræmt. Það var sett inn sem algjört skilyrði í þessari grunnvinnu að nýtt þjónustumat yrði unnið, samræmt þjónustumat fyrir allt landið. Sú vinna hefur staðið yfir núna á þessu ári og henni er að ljúka og hún er grunnurinn fyrir því að jafnræði verði tryggt í þeirri þjónustu sem sveitarfélögin eru að taka yfir á sínar hendur. Það var líka kvartað yfir því að samræmdar rekstrarupplýsingar vantaði um málaflokkinn. Það er nákvæmlega sú vinna sem hefur farið fram á undanförnum tveim, þrem árum, að byggja upp algjörlega nýtt kostnaðarmat fyrir þennan málaflokk sem er grunnur fyrir því fjárhagslega samkomulagi sem ríki og sveitarfélög gengu frá núna í sumar.

Fjárveitingar byggja á mati á þörf, það er nákvæmlega það sem samræmda þjónustumatið á að tryggja. Síðan gerði Ríkisendurskoðun athugasemdir við það að faglega eftirlitið væri ekki nægjanlega tryggt en lykilatriðið í yfirfærslusamningi ríkis og sveitarfélaga er einmitt að endurmat og yfirferð varðandi gæðaþátt (Forseti hringir.) og þá hluti sé einn af þeim hornsteinum (Forseti hringir.) sem horft er til á næstu fjórum árum, fram að endurmati 2014.