139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

flutningur á málefnum fatlaðra.

[12:34]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég vil þakka sérstaklega fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Mér finnst allir sem hafa rætt þetta mikilvæga málefni hafa nálgast þann kjarna sem við eigum að hafa hugfastan og það er að sjálfsögðu hinn fatlaði sjálfur. Við höfum öll að mínu mati talað á þann veg og um það hvernig getum við bætt þjónustuna og eflt hana fyrir hinn fatlaða með tilflutningi yfir til sveitarfélaganna.

Ég vil reyndar benda á að þetta er svolítið að breytast og samfélagið er sem betur fer að breytast. Við vorum tvær konurnar sem tókum þátt í þessari umræðu en aðrir ræðumenn voru karlmenn. Hvað er mjúkt og hvað er hart og hvað er hart og hvað er mjúkt? Og ég vil sérstaklega þakka fyrir þær ábendingar og athugasemdir sem komu fram af hálfu allra í þessari umræðu.

Meginatriðið er að við erum öll mjög meðvituð um að þessi tilfærsla á verkefnum um áramótin verður að takast vel. Hún verður að takast vel í þágu sveitarfélaganna en fyrst og síðast í þágu hins fatlaða. Ég vil sérstaklega fagna því sem hæstv. ráðherra talaði um hér áðan og vonandi að það sé vísbending um ný og betri vinnubrögð af hálfu ráðherra í ríkisstjórn. En mér finnst það bera vott um framsýni þegar hann talar um að hann vilji nýta krafta allra sem koma að verkefninu, þar á meðal að kalla til stjórnarandstöðuna varðandi samráð, þegar hann ætlar að hafa samráð varðandi þingsályktunartillöguna við hagsmunasamtök og sveitarfélög og líka okkur í stjórnarandstöðunni. Ég held að það verði til þess fallið að við getum staðið saman og staðið vörð um þennan málaflokk þannig að þjónustan verði sem allra best.

Það skiptir máli og ég tek undir það sem hefur komið fram hér að fjölbreytnin verði viðurkennd innan málaflokksins, að um leið og við setjum fram samræmt mat og samræmdar reglur verði fjölbreytnin tryggð um leið, að fjármunir fylgi þar sem þörfin er, að fjármunirnir fari þangað sem þeirra er virkilega þörf (Forseti hringir.) og við tryggjum þannig og stöndum öll vörð um okkar annars ágæta velferðarkerfi.