139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[13:54]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, með síðari breytingum. Frumvarp um breytingar á lögum um húsnæðismál var lagt fyrir á síðasta þingi en hlaut ekki afgreiðslu. Það var síðan tekið til endurskoðunar í félags- og tryggingamálaráðuneytinu og er nú lagt fram á ný með töluverðum breytingum.

Í stuttu máli miða breytingarnar sem hér eru lagðar til að því að gera Íbúðalánasjóði kleift að bregðast við breyttum aðstæðum fólks á húsnæðismarkaði. Lögð er til heimild fyrir Íbúðalánasjóð til að leigja út íbúðir sem sjóðurinn hefur keypt á uppboði með ákvæði um kauprétt, í öðru lagi að sjóðnum verði heimilt að gefa út óverðtryggða skuldabréfaflokka og í þriðja lagi að heimildir Íbúðalánasjóðs til að veita lán til endurbóta verði auknar. Er þá miðað við lán til endurbóta á fjöleignarhúsum og til að bæta aðgengi að húsnæði fyrirtækja og stofnana.

Árið 2008 var gerð lagabreyting sem heimilar Íbúðalánasjóði að leigja eða fela öðrum að annast leigumiðlun með íbúðarhúsnæði sem sjóðurinn hefur yfirtekið á nauðungaruppboði. Kveðið var nánar á um framkvæmdina í reglugerð ráðuneytisins, nr. 7/2010, um útleigu uppboðsíbúða Íbúðalánasjóðs.

Með breytingunni sem hér er lögð til verður Íbúðalánasjóði heimilt að bjóða á kaupleigu uppboðsíbúðir eða aðrar íbúðir sem sjóðurinn hefur leyst til sín og henta til slíkrar ráðstöfunar þannig að tilteknir húsaleigusamningar verði með kauprétti ef leigjandinn kýs að nýta sér þennan möguleika. Gert er ráð fyrir að sett verði nánari ákvæði um fyrirkomulag kaupleigu í reglugerð.

Virðulegi forseti. Ég bind vonir við að þetta ákvæði um kaupleigu muni auka verulega á húsnæðisöryggi þeirra sem eru illa staddir fjárhagslega og að með þessu opnist fólki sem misst hefur húsnæði á uppboði möguleiki á að eignast húsnæðið á nýjan leik.

Í núgildandi lögum er kveðið á um að verðbréf Íbúðalánasjóðs skuli vera verðtryggð samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hér er lagt til að sjóðurinn fái heimild til að bjóða óverðtryggð lán og er meginhugmyndin sú að gera óverðtryggð langtímalán að raunhæfum valkosti fyrir viðskiptavini Íbúðalánasjóðs.

Í bráðabirgðaákvæði er tillaga um tímabundna breytingu á lánaheimildum Íbúðalánasjóðs. Samkvæmt því verður sjóðnum heimilt að veita einstaklingum allt að 20 ára lán til endurbóta eða viðbyggingar við sameign í fjöleignarhúsi þar sem þeir búa ef endurbæturnar miða að því að setja lyftu í húsið eða bæta á annan hátt aðgengi að íbúðinni. Lagt er til að slíkar lánveitingar verði heimilar jafnvel þótt fjárhæð lána sem þegar hvíla á fasteigninni sé hærri en hámarksfjárhæðir Íbúðalánasjóðsveðbréfa.

Í ákvæði til bráðabirgða er einnig lagt til að víkkaðar verði tímabundið heimildir sjóðsins til að lána fyrirtækjum og sveitarfélögum til að fjármagna breytingar eða viðbót á húsnæði í því skyni að bæta aðgengi fatlaðra. Miðað er við að lánveitingar geti numið allt að 90% af kostnaði við framkvæmdir en þó aldrei sem nemi hærra hlutfalli en 50% af fasteignamati viðkomandi fasteignar.

Loks er í bráðabirgðaákvæði lagt til að Íbúðalánasjóði verði heimilt að veita einstaklingum lán til endurbóta þó að fjárhæð lána sem þegar hvíla á fasteigninni sé hærri en hámarksfjárhæðir Íbúðalánasjóðs sem nú eru 20 millj. kr. Samanlögð fjárhæð áhvílandi lána má þó aldrei vera hærri en sem nemur fasteignamati eignarinnar. Miðað er við að sett verði reglugerð um nánari útfærslu bráðabirgðaákvæðis um lán til endurbóta. Heimildir til útlána samkvæmt þessu ákvæði renna út í lok árs 2013.

Ég sé margvíslegan ávinning í auknum lánaheimildum Íbúðalánasjóðs til endurbóta á húsnæði sem miða að bættu aðgengi. Fjölgun lyftuhúsa leiðir til aukins búsetufrelsis fólks óháð aldri og hreyfigetu. Þetta stuðlar þannig að auknum lífsgæðum fólks með fötlun og eins getur það dregið verulega úr kostnaði samfélagsins af stofnanaþjónustu við aldraða og fatlaða. Við höfum ekki staðið okkur sem skyldi í aðgengismálum fólks með fötlun og er ljóst að víða þarf að gera miklu betur í þeim efnum, jafnt í húsnæði opinberra stofnana ríkis og sveitarfélaga og hjá fyrirtækjum.

Síðast en ekki síst bind ég vonir við að með því að ýta undir framkvæmdir af þessum toga getum við hleypt auknu lífi í byggingarframkvæmdir og fjölgað þannig störfum.

Hæstv. forseti. Ég hef rakið í megindráttum efni frumvarpsins sem ég vona að fái góða umfjöllun og jákvæðar viðtökur í félags- og tryggingamálanefnd.