139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[13:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir yfirferðina á frumvarpinu. Þetta frumvarp er mjög þarft og brýnt og kem ég til með að styðja það. Í því eru m.a. lagðar til þær breytingar að heimila Íbúðalánasjóði að bjóða til leigu þær íbúðir sem sjóðurinn hefur keypt á uppboði þannig að tilteknir húsaleigusamningar verði með kauprétti. Þarna er í fyrsta sinn hér á landi verið að hverfa frá hinni svokölluðu séreignarstefnu húsnæðiseigenda þar sem allir eiga að eiga húsnæði eða réttara sagt bankastofnanir eiga það húsnæði sem fólk býr í en fólki er talin trú um að það eigi eignarhlut í því, en sá hlutur hvarf nú í hruninu.

Virkan leigumarkað hefur vantað, leigumarkað eins og við þekkjum frá Norðurlöndunum þannig að þetta er sérstakt fagnaðarefni. Til þess að leigumarkaður ríkis geti þrifist er forsendan sú að ríkið eigi viðkomandi íbúðarhúsnæði sem fólk leigir þá af ríkinu sjálfu til að ekki sé hægt að spenna upp verð á leigumarkaði. Við vitum að nú eru stórir og fjársterkir aðilar að kaupa upp íbúðarhúsnæði og ætla svo í framtíðinni að ráða leigumarkaðnum, þ.e. verðleggja hann. Því vík ég nú að 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Hvers vegna kemur þar fram að Íbúðalánasjóði verði heimilt að fela öðrum með samningi að annast miðlun íbúðanna? Hvers vegna getur Íbúðalánasjóður ekki haft þetta innan húss hjá sér svo fulls jafnræðis sé gætt og að þetta fari ekki, eins og liggur fyrir í frumvarpinu, í hendur einkaaðila sem geta ráðið leiguverði?