139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[14:01]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka undirtektirnar og tek heils hugar undir að það sem skiptir mjög miklu máli nú á næstu vikum er að endurskoða húsnæðiskerfið. Hef ég ákveðið að skipa hóp hagsmunaaðila og þverpólitískra aðila til að fara yfir kerfið í heild til að bæta búsetuskilyrði fólks, þ.e. bæði hvað varðar leigu, búsetuform og kaupleigu.

Það er alveg rétt sem hér hefur líka komið fram að það hefur vantað öryggi, þ.e. stundum hafa verið byggð hús sem hafa átt að vera til leigu en síðan hafa fasteignafélögin mörg hver sem eignuðust þessar eignir bara ákveðið að selja þær, jafnvel ofan af fólkinu sem þar var flutt inn.

Varðandi 1. gr. og þetta orðalag varðandi miðlun, það er ekki átt við að þetta sé fullkomlega á vegum Íbúðalánasjóðs, þ.e. ábyrgðin er þar. Þetta er spurning um það hvort Íbúðalánasjóður eigi að setja upp þjónustuskrifstofu til að fara með leiguna. Ákvörðun um verð og annað slíkt er áfram hjá Íbúðalánasjóði. Spurningin er bara hver sér um umsýsluna. Það getur verið að einhver leigumiðlun eða einhverjir aðrir aðilar sem eru með slíka starfsemi nú þegar geti fellt þetta undir sína starfsemi en regluverkið og öll ákvarðanataka verður eftir sem áður í Íbúðalánasjóði. Ég vona að ég skýri það rétt. Það er sem sagt ekki verið að útvista forsendunum. Það er verið að útvista framkvæmdinni í sjálfu sér í staðinn fyrir að búa til enn eina stofnun innan opinbera geirans á sama tíma og fullt af fólki sem hefur verið að vinna í þessum bransa, þekkir vel til og er treystandi til að sjá um umsýsluna er atvinnulaust. En það á ekki að hafa áhrif á leiguverð eða annað slíkt.