139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[14:10]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Mér er eiginlega vandi á höndum með þetta frumvarp því mér finnst það ekki alslæmt. Ég hef aldrei verið sérstakur aðdáandi séreignarstefnunnar og hér hefur tilfinnanlega skort öruggan og góðan leigumarkað, sanngjarnan markað, þar sem fólk getur ákveðið að kaupa sér ekki húsnæði og tekið meðvitaða ákvörðun um að leigja og verið þá tryggt með öruggt húsnæði og eigi ekki á hættu að þurfa að rífa börn úr skóla eða rífa sig upp á jafnvel nokkurra mánaða fresti.

Þó finnst mér að það eigi ekki að flokkast sem áhættufjárfesting á Íslandi að koma sér upp hóflegu þaki yfir höfuðið fyrir sig og sína fjölskyldu ef það er vilji manns. Efnahagskreppur einkennast af stórfelldri eignatilfærslu, jafnvel mætti kalla það eignaupptöku. Að mínu mati er það hlutverk stjórnvalda að stýra því hvernig eignatilfærslan fer fram en ef henni er ekki stýrt tapa þeir sem telja sig hafa átt eitthvað, almenningur í landinu, sínum eignum. Það er nákvæmlega það sem við erum að horfa upp á hér. Fólk er að tapa húsnæði sínu og forsendubresturinn, bæði verðbólguskotið og náttúrlega gengismálin, hefur ekki verið leiðréttur og mér sýnist að í þessari ríkisstjórn standi það ekki til. Það veldur því að fólk missir húsnæði sitt og ævisparnaðinn, gleymum því ekki. Fólk á Íslandi hugsar um húsnæði sitt sem lífeyri líka. Fólk missir ævisparnaðinn úr húsnæðinu á einu bretti og því finnst mér það eiginlega nánast eins og brandari að ætla að leigja fólki húsnæði sitt aftur án þess að leiðrétta forsendubrestinn. Því get ég ekki stutt þetta frumvarp þótt mér þyki margt í því gott og mér fyndist það ágætt við aðrar kringumstæður, t.d. ef forsendubresturinn yrði leiðréttur fyrst. Við vitum að það er alltaf einhver hluti fólks sem lendir engu að síður í einhverju veseni og þarf auðvitað að taka afleiðingum gjörða sinna en forsendubresturinn er ekki afleiðing af gjörðum þess og hann verður að leiðrétta. Því get ég ekki stutt þetta frumvarp.