139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[14:15]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Það er margt gott um þetta mál að segja en það má gagnrýna ýmislegt við það líka. Ég fagna sérstaklega mjög áhugaverðu innleggi hæstv. ráðherra um þessar íbúðir, að stór hluti af þessum eignum séu e.t.v. eignir sem enn hefur ekki verið búið í.

Varðandi frumvarpið þá er þessi stefnubreyting af hinu góða. Það er verið að hverfa frá stefnu og breyta stefnu sem löngu var tímabært að gera. Séreignarkerfið er um margt ágætt en það hentar einfaldlega ekki öllum og Ísland er og hefur verið algjörlega sér á báti að ég held bara í öllum heiminum hvað þessa stefnu varðar og nú er hún einfaldlega hrunin.

Það sem er hins vegar að þessu frumvarpi, hvað svo sem því líður hvort í augnablikinu sé um að ræða íbúðir sem ekki hefur verið búið í, er að í framtíðinni verður í auknum mæli um að ræða íbúðir sem Íbúðalánasjóður leysir til sín vegna þess að fólk missir þær út af þeim forsendubresti sem bankahrunið og efnahagshrunið leiddu til. Það eru þær aðferðir sem ég mótmæli, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir, að fyrst sé verið að hirða eignir af fólki og síðan geti það eða einhver annar leigt eignirnar aftur. Þetta finnst mér vera algjörlega ótækt og ósiðlegt að gera fyrr en það er þá alla vega búið að leiðrétta þennan forsendubrest og endurgreiða fólki að hluta til þá fjármuni sem það hefur lagt í íbúðina og sem það með réttu á, því það er verið að láta fólk borga af lánum sem það aldrei tók og hirða eignir af fólki vegna forsendna sem það á engan þátt í nema þá að því leytinu til að það trúði ríkisstjórninni og Seðlabankanum og öllum efnahagsspám um líklega framvindu efnahagsmála þegar það keypti eignir sínar.

Þetta frumvarp væri fínt ef það hefði verið lagt fram við aðrar kringumstæður, eins og svo mörg önnur frumvörp sem hafa komið frá ríkisstjórninni, lög um greiðsluaðlögun og lög um sértæka greiðsluaðlögun, sem eru mjög brýn og fín mál ef þau hefðu verið lögð fram við eðlilegar efnahagsaðstæður þar sem þessir hlutir eru alltaf hluti af venjulegri dýnamík í stöðugu hagkerfi og alltaf einhverjir sem lenda í greiðsluerfiðleikum. Að gera það með þessum hætti á þessum tíma er bjarnargreiði við fólk.

Við erum líka að fá hér inn í þingið lög um gengistryggð lán þar sem í ljós hefur komið að það fólk sem hefur ofgreitt af lánum sínum mun ekki fá ofgreiðslu sína endurgreidda. Hverjum er verið að hygla þar öðrum en fjármálafyrirtækjunum? Við erum að fá hér inn í þingið lög um fyrningarfrest á kröfum vegna gjaldþrota sem verið var að veita umsagnir um og sem við skiluðum okkar umsögnum um til hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra í gær. Það frumvarp er að okkar mati það meingallað að það er í raun nánast ónýtt. Það er galopið fyrir allar þær leiðir til riftunar á þeim fyrningarfresti sem það á að hafa fyrir dómstólum. Það frumvarp er það galopið fyrir þær leiðir að, eins og ég sagði áðan, það er nánast ónýtt. (Utanrrh.: Hefurðu séð það?) Ég hef séð það, já. (Utanrrh.: Ertu búinn að lesa það í þaula?) Búinn að lesa það í þaula, hæstv. utanríkisráðherra.

Þetta finnst mér dapurlegt því að þetta frumvarp þyrfti ekki að vera svona. Eina ákvæðið sem þyrfti að vera þarna er að fyrningarfresturinn sé riftanlegur ef sýnt er að um saknæmt athæfi sé að ræða en það er aukaatriði og það er tekið fram í texta athugasemda með frumvarpinu að það ásamt öðrum atriðum, svo sem ámælisverðri háttsemi, sé ástæða til riftunar á frestun. Ámælisverð háttsemi er allt mögulegt og það getur m.a. talist til ámælisverðrar háttsemi að greiða ekki af lánum sínum þannig að við skulum athuga að hér er ekki verið að ganga nógu langt.

Fyrir marga sem standa fyrir utan þinghúsið er hér í gangi einhvers konar leiksýning þar sem verið er að slengja fram frumvörpum sem eiga að nafninu til að hjálpa til í þeim hörmungum sem fólk er að ganga í gegnum í húsnæðismálum en gera það ekki. Þetta eru eftiráaðgerðir sem koma of seint. Það þarf að laga stöðuna í skuldamálum heimilanna áður en fólk verður gjaldþrota, það er það sem skiptir máli. Það þarf að laga stöðuna hjá fólki sem hefur keypt sér húsnæði með lánum frá Íbúðalánasjóði áður en Íbúðalánasjóður hirðir af því eignirnar. Það er ekki leið út úr vandanum að hirða af fólki eignir og leigja því þær aftur. Það er ekki verið að taka á vandanum heldur er einfaldlega verið að slá hér um einhverjum pappírum og frumvörpum sem við aðrar kringumstæður væru mjög góð en eru eins og ástandið er í dag, eins og ég sagði áðan, í flestum tilvikum einhvers konar bjarnargreiði.

Hvers vegna er ekki búið að finna út úr því hvernig á að laga þennan forsendubrest? Ríkisstjórnin virðist koma af fjöllum þegar talað er um að eina leiðin út úr þessu sé almenn niðurfærsla á lánum eða leiðrétting vegna þess forsendubrests sem varð. Þetta hefur verið talað um í bráðum tvö ár en ríkisstjórnin virðist koma algjörlega af fjöllum.

Ég fagna því að í þessu frumvarpi og sumum öðrum sem hafa komið fram örlar aðeins á nýrri hugsun en endurtek það sem ég sagði að þau hafa komið fram of seint og eru ekki nógu vel úr garði gerð til að gera það gagn sem þau þurfa að gera og það er ekki gott.