139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[14:24]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil gleðja hæstv. utanríkisráðherra með því að við höfum farið mjög ítarlega yfir þetta frumvarp sem leggja skal fram um fyrningarfresti. Við höfum sent ráðherranum athugasemdir við það. Við höfum gert athugasemdir við að það verði lagt fram í óbreyttri mynd og það hefur ekki verið hlustað á þær athugasemdir. Engu að síður var ákveðið að leggja frumvarpið fram.

Hér í upphafi var talað um að það ætti að vera samráð og það ætti að senda stjórnarandstöðunni frumvörpin til að hún gæti gert við þau athugasemdir. Það er ekki mikið samráð þegar ekki er hlustað á athugasemdirnar og þetta frumvarp er einfaldlega meingallað. Það er ekkert hægt að líta fram hjá því að það er galopið fyrir öll slit á fyrningarfresti og þar með nær það ekki tilgangi sínum.

Ástæðan fyrir því að ég er að ræða það hér er einfaldlega sú að undanfarna fimm daga hefur ríkisstjórnin barið á brjóst sér í fjölmiðlum og opinberlega sagt að hún sé á leiðinni með frumvörp sem muni hjálpa heimilunum og þar á meðal frumvarp um fyrningarfrest á kröfum sem ég hef fagnað. Ég hefði aldrei tekið undir þau fagnaðarlæti ef ég hefði vitað hvernig þetta frumvarp liti út, það er bara þannig. Ég get ekki tekið þátt í þeim leikaraskap sem ríkisstjórnin er í og ég bið hæstv. utanríkisráðherra einfaldlega að virða það og að kynna sér frumvarpið vel. Ég skal lesa það yfir með honum og benda á hvaða ágallar eru á því þannig að við getum þá kannski reynt að laga það í sameiningu því að svo sannarlega þarf að gera það og svo sannarlega mun ég styðja það ef frumvarpið verður lagað, það er engin hætta á öðru.