139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[14:25]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Mér finnst það afar óviðkunnanlegt að hér sé verið að ræða efni frumvarps sem er ekki einu sinni búið að leggja fram. Það fóru fram málefnalegar umræður um það frumvarp í ríkisstjórn á sínum tíma. Sá sem lagði það fram hlustaði með opin eyru bæði tvö á þær umræður og tók tillit til ábendinga.

Í krafti yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar um samráð við stjórnarandstöðuna hafa a.m.k. leiðtogar stjórnarandstöðunnar fengið að sjá þetta frumvarp. Það er ekki þar með sagt að í því felist að það eigi að hlusta á allt og taka allt til greina sem þeir segja. Hins vegar hefur hv. þm. Þór Saari, sem er með greindari og gleggri mönnum á þessu sviði, fullkominn rétt til þess þegar málið kemur hér fyrir í þinginu að koma með sínar athugasemdir og rökræða þær, og ef það er ekki tekið tillit til þeirra og hann getur sýnt fram á það með rökum þá, eins og ég sagði hér áðan, skal ég sitja í mínu sæti og þegja. En þangað til tel ég að hann hafi engan móralskan rétt til að slá það út af borðinu sem af góðum vilja er gert og góðum huga og byggt, að því er menn a.m.k. eru að reyna að gera, á þeim ráðleggingum sem hafa komið fram, m.a. frá hv. þingmanni. Það er því allt of snemmt að ætla að slá þetta út af borðinu og ég vek athygli hv. þingmanns á því að það frumvarp sem hann hélt ræður um hér í fyrra og dásamaði gekk þó ekki hvað frestinn varðar jafnlangt og það frumvarp sem ríkisstjórnin er að setja fram hér núna. Hv. þingmaður ætti þá frekar að verja tíma sínum og þrótti í að sýna fram á það með hvaða hætti megi bæta frumvarpið og t.d. það sem hv. þingmaður las upp hér áðan, það væri þá hægt að setja skilgreiningar við það ákvæði þannig að það væri ekki eins víðtækt og hv. þingmaður er að tala um.

Spyrjum að leikslokum. Ef leikslok verða þannig að hv. þingmaður telur að hann geti enn þá sagt að þetta sé hundónýtt þá getur hann komið og lamið okkur í hausinn með því, en ekki fyrr.