139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

húsnæðismál.

100. mál
[14:27]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég hef ekki sagt að þetta frumvarp sé hundónýtt, ég hef sagt að það nái ekki markmiðum sínum eins og það er. Þegar frumvarp kemur svona frá ríkisstjórninni og það eru gerðar athugasemdir við það sem ekki eru teknar til greina þá veit maður alveg hvað er fram undan. Frumvarpið fer væntanlega til allsherjarnefndar og þar verða ekki gerðar á því neinar breytingar. Það væri annaðhvort búið að fresta því að leggja fram frumvarpið eða taka tillit til athugasemdanna áður en það er lagt fram, það er það sem ég geri athugasemdir við.

Það er með þetta frumvarp — og ég veit sjálfur að það er lagt fram af góðum hug og samið af góðum hug af hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra því að ég hef setið fimm eða sex af þeim fundum þar sem þessi mál hafa verið rædd og enginn ráðherranna ber þessi mál meira fyrir brjósti en sá hæstv. ráðherra. Það er ekki þar með sagt að öll þau mál sem komið hafa fram þurfi að hljóta hér einhverja hallelújameðferð alveg sama hvernig þau líta út.

Ég legg einfaldlega til að þessu frumvarpi verði kippt í liðinn hið snarasta áður en það verður lagt fram, það einfaldar málsmeðferðina og flýtir málinu í gegnum þingið. Við búum ekki við slíkar aðstæður í samfélaginu í dag að við eigum að leggja út í kapp með það hvort þingmál sem lögð eru fram nái markmiðum sínum eða ekki. Auðvitað eiga þau að ná markmiðum sínum, til þess er verið að leggja þau fram. Þetta frumvarp nær ekki því markmiði að veita fólki skjól frá kröfuhöfum sínum eftir tvö ár.