139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2010.

93. mál
[14:29]
Horfa

Frsm. utanrmn. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Þann 8. október sl. tilkynnti nóbelsverðlaunanefndin norska að kínverski andófsmaðurinn Liu Xiaobo hlyti friðarverðlaun Nóbels í ár. Liu Xiaobo hefur barist fyrir lýðræðisumbótum og mannréttindum í Kína í meira en tvo áratugi og var í fararbroddi þeirra sem kröfðust lýðræðisumbóta á torgi hins himneska friðar árið 1989 þegar þarlend stjórnvöld sendu herinn til að brjóta þau mótmæli á bak aftur. Hann hefur um langt skeið setið í fangelsi í Kína fyrst og fremst fyrir skoðanir sínar.

Norska nóbelsverðlaunanefndin segir í rökstuðningi sínum fyrir ákvörðuninni um að veita honum friðarverðlaun Nóbels að Kínverjar þurfi nú, þegar Kína sé orðið eitt helsta efnahagsveldi heims, að taka á sig aukna ábyrgð og nefndin bendir á að Kínverjar hafi brotið gegn ýmsum alþjóðasáttmálum auk þess sem kínversk stjórnvöld brjóti þau ákvæði um tjáningarfrelsi sem sé að finna í sjálfri stjórnarskrá Kína.

Þann 11. október sl. var birt yfirlýsing frá hæstv. utanríkisráðherra, Össuri Skarphéðinssyni, þar sem hann hvetur kínversk stjórnvöld til að sleppa Liu Xiaobo, handhafa friðarverðlauna Nóbels, úr haldi og segir ráðherra jafnframt í yfirlýsingu sinni að enginn eigi að sitja í fangelsi fyrir skoðanir sínar. Þar kemur jafnframt fram það álit ráðherrans að nóbelsverðlaunanefndin norska hafi tekið ákvörðun sína að vel ígrunduðu máli og Liu Xiaobo sé verðugur handhafi nóbelsverðlauna og það sé mikilvæg viðurkenning á framlagi hans fyrir baráttu- og mannréttindamálum í Kína.

Málefni friðarverðlaunahafans voru til umræðu á fundi utanríkismálanefndar í síðustu viku. Þar kom fram almennur stuðningur við þá stefnu og yfirlýsingu sem komið hefur fram af hálfu íslenskra stjórnvalda. Sú umræða hefur enn fremur farið fram í þingsal hvort rétt sé að Alþingi samþykki sérstaka ályktun af þessu tilefni þar sem því sé fagnað að friðarverðlaun Nóbels árið 2010 hafi fallið þessum þekkta baráttumanni fyrir mannréttindum í Kína í skaut. Á fundi nefndarinnar í gær varð samstaða um það meðal allra viðstaddra nefndarmanna að leggja fram tillögu til þingsályktunar um friðarverðlaunahafa Nóbels fyrir árið 2010 og er hún hér til umræðu nú á þskj. 99 og er flutt af utanríkismálanefnd. Texti tillögurnar er svohljóðandi:

„Alþingi fagnar því að Liu Xiaobo hafi verið veitt friðarverðlaun Nóbels fyrir baráttu sína fyrir mannréttindum í Kína. Alþingi skorar á kínversk stjórnvöld að leysa Liu Xiaobo úr haldi nú þegar og sýna með því í verki virðingu sína fyrir mannréttindum.“

Með þessum hætti og ef Alþingi samþykkir þessa þingsályktunartillögu er það með þeim ráðum sem Alþingi býr yfir að lýsa yfir afdráttarlausum stuðningi Íslands við mannréttindabaráttu í Kína og taka undir með öðrum, bæði innan lands og víða um heim, sem hafa tjáð skoðanir sínar í þessu efni með sama hætti þar sem kínversk stjórnvöld eru eindregið hvött til að láta þennan mannréttindafrömuð lausan og styðja þannig, ekki bara í orði heldur einnig á borði, við mannréttindabaráttu þar sem annars staðar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þessa tillögu. Hún skýrir sig sjálf. Henni fylgir engin sérstök greinargerð, ég held að hún skýri sig algerlega sjálf. Ég legg til, frú forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögunni vísað til síðari umræðu.