139. löggjafarþing — 17. fundur,  21. okt. 2010.

friðarverðlaunahafi Nóbels árið 2010.

93. mál
[14:40]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Mannréttindi eru æðri öllum öðrum gildum, þau eru æðri trúarbrögðum o.s.frv. þó að réttur til trúar sé hluti af mannréttindum. Okkur ber að standa vörð um mannréttindi hvar sem þau eru og þess vegna er ég mjög fylgjandi þessari tillögu. Þessi maður situr í fangelsi vegna skoðana sinna, nýtur ekki málfrelsis, og þar er verið að brjóta mannréttindi. Þrátt fyrir alla efnahagslega hagsmuni sem við gætum haft af því að fara þessa leið þá eru mannréttindi miklu sterkari en allir aðrir hagsmunir og það verða menn að skilja, líka Kínverjar.

Þetta er vel meint tillaga, hún er jákvæð og hún felst í því að skora á kínversk stjórnvöld að leysa þennan mann úr haldi og sýna þannig virðingu fyrir mannréttindum. Það hefur mjög margt breyst í Kína, afskaplega margt. Þarna var hungursneyð fyrir ekki mörgum áratugum og þegar menn deyja úr hungri eru mannréttindi ekki sérstaklega mikils virt. Það er mikil og ég mundi segja að mörgu leyti jákvæð þróun í Kína en þetta er einmitt sá hlutur sem kínversk stjórnvöld ættu að skoða og fara í gegnum og taka jákvætt í svona ábendingar frá okkur um að gæta að mannréttindum.