139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[14:53]
Horfa

dómsmála- og mannréttindaráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti. Þetta er breyting á 165. gr. laganna. Þetta frumvarp hefur verið samið í dómsmála- og mannréttindaráðuneytinu og á sér nokkurn aðdraganda. Frumvarp svipaðs eðlis var til umræðu í þinginu hér sl. vor en fyrsti flutningsmaður þess er hv. þm. Lilja Mósesdóttir en hv. þingmenn Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Lilja Rafney Magnúsdóttir, Eygló Harðardóttir og Margrét Tryggvadóttir stóðu að því frumvarp. Það fékk góða umræðu í allsherjarnefnd og hefur sú vinna skilað sér inn á borð ríkisstjórnar og er þetta stjórnarfrumvarp sem ég mæli fyrir:

Í frumvarpi þessu er lagt til að fyrningartími allra krafna sem lýst er í þrotabú verði sá sami án tillits til þess um hvers konar kröfu er að ræða. Sá tími verði tvö ár. Jafnframt er lagt til að sami frestur gildi um kröfur sem ekki hefur verið lýst við gjaldþrotaskiptin nema þær fyrnist á skemmri tíma eftir almennum reglum. Þetta er lagt til með tilliti til þess að lánardrottinn ætti að öðrum kosti færi á að láta almennan fyrningarfrest gilda um kröfu sína með því einu að lýsa henni ekki við skiptin. Að auki er lagt til að ekki verði unnt að slíta fyrningunni, hvort sem kröfu hefur verið lýst eða ekki, innan þessa tveggja ára frests nema í undantekningartilfellum, en til þess þurfi lánardrottinn að höfða mál fyrir dómstólum á hendur þrotamanni og fá viðurkenningu á því að fyrningu kröfunnar sé slitið. Til þess að fá slíkan viðurkenningardóm samkvæmt frumvarpinu þarf lánardrottinn að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið, auk þess sem hann verður að leiða líkur að því að hann geti fengið fullnustu kröfu sinnar með lengri fyrningartíma. Þegar rætt er hér um sérstaka hagsmuni lánardrottins er horft til þess af hvaða rót kröfurnar eru runnar og höfð í huga tilvik eins og krafa á hendur þrotamanni sem til hefur orðið með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi hans. Hér er að sjálfsögðu ekki um tæmandi talningu að ræða en til þess ber að líta að hér er gert ráð fyrir að um undantekningartilfelli verði að ræða og þrönga túlkun á heimildinni. Það er mikilvægt að leggja áherslu á þetta, að sá er skilningurinn að um þrönga túlkun verði að ræða á þessari heimild. Er ráðgert að það komi í hlut dómstóla að afmarka í framkvæmd hvers konar tilvik gætu heyrt hér undir. Fái lánardrottinn viðurkenningu dómstóls á því að fyrningu kröfunnar sé slitið hefst nýr fyrningarfrestur eftir almennum reglum. Þá er einnig lagt til að ef skuldari eignast á þessu tveggja ára tímabili eign og lánardrottinn gerir fjárnám í henni þá fyrnist ekki sá hluti kröfu hans sem greiðist af andvirði þess sem fjárnám var gert í. Sá hluti kröfunnar sem greiðist ekki af andvirði eignarinnar mundi á hinn bóginn fyrnast við lok þessa tveggja ára tímabils.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp hér við kynningu þess í 1. umr. Ég tel mjög mikilvægt að það fái góða umræðu í allsherjarnefnd. Það mun að sjálfsögðu fara til umsagnaraðila og fá umfjöllun í allsherjarnefnd. En ég legg áherslu á að það hlýtur að vera mikilvægt að málið fái engu að síður skjóta afgreiðslu í þinginu og verði hið allra fyrsta að lögum.