139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[14:57]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um gjaldþrotaskipti þar sem ætlunin er að stytta fyrningarfrest á kröfum eftir gjaldþrot. Meiningin er mjög góð, þ.e. að binda endi á það ófremdarástand sem nú er, að í rauninni er léttilega hægt að framlengja kröfur aftur og aftur og jafnvel til æviloka, og jafnvel kröfur sem viðkomandi tók ekki að láni heldur vegna ábyrgða eða vegna áætlana skattstjóra o.s.frv. Við búum við mikið ófremdarástand og ætlunin er að stöðva það.

Ég er ekki lögfræðingur en ég kann íslensku og hér stendur að kröfuhafi geti með dómi fengið frestinn framlengdan ef hann sýnir fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að rjúfa fyrningu. Hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra sagði að þetta ætti að túlka þröngt. En ég get ekki séð annað en að maður sem t.d. á milljón króna kröfu á skuldara hafi sérstaka hagsmuni af því að ná í þessa milljón, ég get ekki séð annað. Ég held að sú hv. nefnd sem fær þetta í hendur verði að vinna þetta miklu betur. Ef það er viðurkennt fyrir dómi að kröfuhafi hafi sérstaka hagsmuni þá dettur þetta ofan í gamla hjólfarið. Það eru ekki einu sinni svo að aftur verði framlengt í tvö ár eða eitthvað slíkt heldur dettur það ofan í gamla hjólfarið.

Ég vil gjarnan að hæstv. ráðherra útskýri fyrir okkur hvernig hann ætlar að túlka þetta ákvæði þröngt. Ég held að hv. nefnd, sem fær þetta til umfjöllunar, verði að setja á það miklu skarpari mörk þannig að þetta haldi.