139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu hans en ég vil taka það fram að ég deili áhyggjum ráðherrans og margra annarra þingmanna af því ástandi sem hefur varað vegna þeirrar skipunar í lögunum hvað fólk á erfitt með að losna undan kröfum jafnvel eftir gjaldþrotaskipti. Ég verð hins vegar að lýsa þeirri skoðun minni hér að mér finnst mjög bratt farið hérna, mér finnst greinargerðin afskaplega knöpp. Þetta er mikil grundvallarbreyting á lögunum sem við erum að fjalla um. Það kemur t.d. fram í greinargerðinni að við erum að taka kröfur sem hafa hingað til fyrnst jafnvel eftir gjaldþrot á 20 árum og við erum að segja absalút núna eftir tvö ár og við segjum líka að einu tilfellin þar sem hægt er að rjúfa fyrningu sé þegar um eitthvað ámælisvert eða saknæmt sé að ræða. Þetta er því gríðarlega mikil grundvallarbreyting.

Um leið og ég deili þeirri meginhugsun sem liggur að baki þessu frumvarpi þá finnst mér að við hljótum að þurfa að gera kröfu til ítarlegri greinargerðar en fylgir frumvarpinu, t.d. samanburð við önnur lönd, einhverjar upplýsingar um það hvernig framkvæmdin hefur verið í reynd. Nú er það svo að þrátt fyrir þær fyrningarreglur sem er að finna í lögunum þá falla niður nær allar kröfur, þ.e. innheimtutilraunum er hætt og þeim lýkur löngu áður en hinn eiginlegi og lagalegi fyrningarfrestur er úti. Mér finnst einsýnt að þetta mál þurfi að fara til mjög nákvæmrar skoðunar í allsherjarnefnd. Ég treysti því að menn kalli eftir þessum upplýsingum en ég fagna því um leið að þessi umræða skuli vera hafin. Ég held að hún sé tímabær og hún er nauðsynleg, ekki bara vegna þeirrar aðstöðu sem er í þjóðfélaginu í dag, og við öll þekkjum, að margir munu enda í gjaldþroti, heldur almennt vegna þess að tilfinning mín hefur verið sú að reglurnar hafi hingað til verið of ósanngjarnar fyrir skuldara.