139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:30]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna ræðu hv. þingmanns og formanns Sjálfstæðisflokksins. Mér fannst hún einkennast af víðsýni og stórmennsku. Ég er ekki viss um að allir forverar hans í embætti hans innan flokksins hefðu nálgast þetta mál undan því sjónarhorni sem hann gerir. Ég er sammála öllum meginviðhorfum sem komu fram í máli hv. þingmanns.

Ég er t.d. algjörlega sammála honum um að það að þarf skoða mjög rækilega skattalega meðferð niðurfellinganna við gjaldþrot, algjörlega sammála honum um það, og ég held að hægt sé að setja undir ákveðinn vanda þar í meðferð nefndar. Ég er sömuleiðis sammála honum um að í þessu frumvarpi eru þættir sem þarf að útfæra nánar í meðförum nefndarinnar. Hann nefndi t.d. ákveðin ummæli í ræðu hæstv. dómsmálaráðherra varðandi það við hvaða aðstæður væri mögulegt að rjúfa fyrningu. Þá tökum við bara höndum saman og útfærum það nánar í nefndinni.

Það sem ég óttaðist aðeins í ræðu hv. þingmanns er sú mikla áhersla sem hann lagði á það að við tækjum okkur góðan tíma. Ég er ekki viss um að tíminn sé endilega það sem við höfum mest af við þessar aðstæður. Ég tel að við eigum að reyna að koma þessu máli frá sem fyrst, það liggur á því. Og ég tek undir með hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem sagði áðan að löggjöf er ekki föst stærð, það kann að vera að við þurfum að breyta henni við breyttar aðstæður. Núna er þörf á löggjöf af þessu tagi.

Hv. þingmaður spurði einnar spurningar hér upphátt í ræðustóli sem var þessi: Getur verið að þetta skapi of mikla freistni fyrir menn að fara frekar í gegnum gjaldþrot, og þá tekur það tvö ár að vera laus allra mála, fremur en að fara í greiðsluaðlögun sem tekur eitt til þrjú ár? Ég held að munurinn sem þarna er á, hugsanlega eitt ár, sé svo lítill að hann vegi giska létt andspænis öllum þeim erfiðleikum, andlegum og annars konar, sem fylgja því að fara í gjaldþrot. (Forseti hringir.) Og þó að það sé rétt hjá hv. þingmanni að málin eru metin með öðrum hætti í Bandaríkjunum en hér (Forseti hringir.) hefur þetta samt áhrif á afdrif og möguleika manna innan fjármálakerfisins í framtíðinni (Forseti hringir.) að gjaldþroti slepptu.