139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Nú á ég að glíma við þann freistnivanda að ég er sennilega að hneigjast til of mikillar íhaldsmennsku vegna þess að ég er algjörlega sammála viðhorfi hv. þingmanns til hinnar skattalegu meðferðar. Mér finnst það sem hv. þingmaður ber hér fram og hefur áður gert hníga allt í átt til sanngirni.

Ég er hins vegar ósammála honum um að munurinn sem er á tímalengd meðferðar einstaklings annars vegar við gjaldþrot samkvæmt þessu frumvarpi og hins vegar því ef menn fara í greiðsluaðlögun sé svo mikill að hann virkilega telji það þungt að menn vilji frekar fara í gjaldþrotið. Við erum að tala um eitt ár, í mesta lagi tvö ár, og það er einfaldlega of lítill tími til þess að menn gangi í gegnum það erfiða ferli sem gjaldþrot er. Við vitum vel að gjaldþrot fylgir mönnum lengi þó að þeir séu kannski lausir mála gagnvart kröfuhöfum. Við vitum líka að þó að kerfið á Íslandi sé þannig að menn séu ekki flokkaðir eins og í Bandaríkjunum og njóti stöðu sinnar í vöxtum, þá eiga menn miklu erfiðara um vik með að athafna sig og olnboga sig áfram í lífinu eftir að hafa lent í gjaldþroti en komast hjá því. Ég held að það sé hvatinn sem gerir það að verkum að menn freista allra annarra ráða.

Ég get sömuleiðis auðvitað sagt það að ég er ekkert á móti því að menn taki tíma til að skoða hvernig þetta er í öðrum löndum en við þurfum að flýta okkur dálítið með þetta en þó ekki það hratt að það reki okkur til óvandvirkni. Það ætti nú að vera hægurinn að verða sér úti um þessar upplýsingar. Reyndar er það þannig, a.m.k. í sumum Norðurlandanna, að þetta að breytast einmitt í þá átt, a.m.k. í einu landi, að stytta þennan frest. Það er væntanlega vegna þess að menn telja að það hnígi til sanngirnisáttar alveg eins og menn eru að gera hérna. Ég tel sem sagt að þetta frumvarp sé sögulegt, mér finnst þetta mjög (Forseti hringir.) merkilegt frumvarp og alveg gríðarlega mikilvægt í þeirri stöðu sem við erum í.