139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:40]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér mjög merkilegt frumvarp og mjög merkilega breytingu á lögum og umhverfi fólks sem þarf að fara í gegnum gjaldþrot. Það hlýtur að gleðja hæstv. utanríkisráðherra að fá loksins að ræða þetta í réttu samhengi. Honum lá mikið á að ræða þetta mál áðan þegar það átti ekki við og það er gott að við skulum þá fá að ræða það núna.

Hér er um grundvallarbreytingu að ræða á lögum sem hafa gert það að verkum að fólk hefur oft verið í einhvers konar skuldafangelsi jafnvel fram á grafarbakkann og hefur ekki átt möguleika á að komast undan. Og að tala um að fyrning krafna sé einhvers konar hvati fyrir fólk til að setja sig í gjaldþrot er svona svipað og að segja að það að taka handjárn af fólki sé einhvers konar hvati til þess að það verði ekki kyrrt. Þetta er slíkur heimur sem fólk lendir í og að tala um gjaldþrot með svo léttvægum hætti sem ég hef heyrt hér í dag er ekki við hæfi í svona málum. Það getur vissulega verið til fólk sem kýs gjaldþrot og kýs að standa ekki við skuldbindingar sínar en ég leyfi mér að halda því fram að það sé í miklum minni hluta.

Þær athugasemdir sem ég geri við frumvarpið — og ég fagna því mjög að það sé hér fram komið — snúa að því að það er allt of opið fyrir möguleikana á því að rifta þessum fyrningarfresti. (Utanrrh.: Þú sagðir það ekki í dag, drengur!)

„Slíka viðurkenningu“ — eins og segir í frumvarpinu, með leyfi forseta: „skal því aðeins veita með dómi að lánardrottinn sýni fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að slíta aftur fyrningu, svo og að líkur megi telja á að fullnusta geti fengist á kröfu hans á nýjum fyrningartíma, en að gengnum slíkum dómi gilda almennar reglur um fyrningu hennar.“

Það er tvennt við þetta að athuga. Í fyrsta lagi eru það alltaf hagsmunir kröfuhafans að viðhalda kröfunni þannig að þessir sérstöku hagsmunir gilda alltaf fyrir dómi. Það eru líka alltaf meiri líkur á að fá kröfur greiddar inn í framtíðina þannig að lenging fyrningartíma er alltaf hagfelld fyrir kröfuhafa fyrir dómi. Það eru þessar athugasemdir sem þarf að taka til greina.

Í athugasemdum við frumvarpinu segir svo, með leyfi forseta:

„Til þess að fá slíkan viðurkenningardóm samkvæmt frumvarpinu þarf lánardrottinn að sýna fram á að hann hafi sérstaka hagsmuni af því að fá fyrningunni slitið, auk þess sem hann verður að leiða líkur að því að hann geti fengið fullnustu kröfu sinnar með lengri fyrningartíma. Þegar rætt er hér um sérstaka hagsmuni lánardrottins er horft til þess af hvaða rót kröfurnar eru runnar og höfð í huga tilvik eins og krafa á hendur þrotamanni sem til hefur orðið með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi hans. Hér er að sjálfsögðu ekki um tæmandi talningu að ræða en til þess ber að líta að hér er gert ráð fyrir að um undantekningartilfelli verði að ræða og þrönga túlkun á heimildinni.“

Þetta stendur í athugasemdum við frumvarpið. Þetta stendur ekki í lögunum sjálfum, og þetta orðfæri „til hefur orðið með saknæmri eða ámælisverðri háttsemi“ ætti að sjálfsögðu að fara inn í 1. gr. frumvarpsins. Það er ekki við hæfi að það sé hægt að rifta kröfufresti að öðrum hætti. Ámælisverð háttsemi, hvað þýðir það? Eins og hefur komið hér fram í dag er hægt að flokka ansi margt undir ámælisverða háttsemi og ég, þótt kurteis sé, hef örugglega sjálfur gerst sekur um ámælisverða háttsemi einhvern tíma á lífsleiðinni. Ámælisverð háttsemi getur einfaldlega verið fólgin í því að greiða ekki skuldir sínar eða stofna til skuldbindinga sem menn ráða ekki við.

Það sem verður að hafa í huga við þetta frumvarp og tilurð þess er að hér hefur orðið algjör forsendubrestur í fjármálum þúsunda fjölskyldna og þúsunda manna. Þetta er hlutur sem við í allsherjarnefnd lágum yfir, sams konar frumvarp og atvik, í allan fyrravetur. Við komumst að raun um það að lög um aðför og gjaldþrotaskipti á Íslandi eru ótrúleg flækja og það eru e.t.v. ekki nema fáir lögfræðingar á Íslandi sem skilja þau til hlítar. Við komumst að raun um að staða skuldara er mjög slæm og það er ekki verið að breyta hér einhverju jafnvægi í þessum geira, eins og hv. formaður Sjálfstæðisflokksins talaði um áðan, það er ekkert jafnvægi í þessum geira.

Í kjölfarið af öllum þeim fundum sem allsherjarnefnd hélt um sams konar mál í fyrravetur var ákveðið að óska eftir því að félags- og tryggingamálaráðherra léti vinna skýrslu þar sem gerður yrði samanburður á stöðu skuldara á Íslandi og hinum Norðurlöndunum og öðrum löndum Norður-Evrópu til að reyna að fá hugmynd um hvar Ísland stæði í þeim geira. Sú skýrsla er að sjálfsögðu viðamikið verk og verður ekki tilbúin nærri því strax en hana má hafa til hliðsjónar þegar hún kemur út um það hvort breyta þurfi þessum lögum aftur.

Við erum hins vegar stödd í miðju tímabundnu ástandi þar sem mjög mikilvægt er að svona löggjöf fari í gegn en engu að síður að hún fari í gegn með mjög skýrum hætti. Þessu hefur verið stillt upp sem valkosti við greiðsluaðlögun og menn hafa talað svolítið gegn því. Greiðsluaðlögun gæti hugsanlega tekið einu ári lengur og því væri þetta miklu betri valkostur að því gefnu að menn sýti það ekki að verða lýstir gjaldþrota.

Ég er sama sinnis og hæstv. utanríkisráðherra í þeim málum að ég tel að þessi munur á tímalengd sé tiltölulega lítill, en ég tel líka að greiðsluaðlögunin sé það erfið fyrir mjög marga, eins og hefur komið fram, að hún sé nánast ófær. Ég tel það ekki góða siði að kreista hverja einustu krónu út úr fólki í þrjú ár og sleppa því svo lausu. Hvers vegna? Það er verið að refsa fólki vegna forsendubrests sem það á enga sök á. Ef fólk vill ekki sætta sig við það og sá valkostur er í boði sem hér er á það einfaldlega að fá að fara þá leið.

Það má vel hugsa sér að það verði skerpt á og við munum að sjálfsögðu berjast fyrir því að það verði skerpt á þessu ákvæði um riftun fyrningar. Og það má vel hugsa sér að það ákvæði verði mjög skýrt en það verði jafnframt að einhverju leyti tímabundið, t.d. þar til farið hefur fram ítarleg samanburðarrannsókn á því umhverfi sem er í nágrannalöndunum eða þar til þessi mesti kúfur fjárhagsvandræða heimilanna er yfirstaðinn.

Það má hugsa sér ýmislegt í þessu máli en það sem ég get ekki hugsað mér er að þetta frumvarp fari óbreytt í gegn. Ég veit það sjálfur eftir að hafa setið fundi uppi í forsætisráðuneyti með fimm ráðherra hópnum sem hefur verið að vinna að þessum málum að enginn hefur barist ötullegar fyrir leiðréttingu á skuldavanda heimilanna en hæstv. dómsmála- og mannréttindaráðherra. Ég veit með vissu að hann átti erfitt með að koma þessu máli í gegnum ríkisstjórnina. Við verðum samt að hafa það í huga að þó að þetta mál sé komið inn í þingið er það ekki fullkomið og það er ekki nægilega gott og þess vegna þurfum við að laga það.

Þetta er hluti af fjölda annarra mála sem ég gagnrýndi lítillega áðan þegar hæstv. félags- og tryggingamálaráðherra flutti frumvarp sitt um breytingu á lögum um Íbúðalánasjóð. Ég gagnrýndi það á þeim forsendum að þetta væri eftirálöggjöf. Hún er mjög mikilvæg sem slík en hún er engu að síður eftirálöggjöf og brýnasta viðfangsefnið er að sjálfsögðu að koma í veg fyrir að fólk þurfi að leita í greiðsluaðlögun, í gjaldþrot eða í annað. Það þarf að koma til almenn leiðrétting á þeim forsendubresti sem varð hér fyrir öll heimili í landinu og það verður í rauninni að vera sá grunnur sem hægt er að byggja á. Að öðrum kosti munum við lenda í áralangri flækju og súpu gjaldþrotamála, greiðsluaðlögunarmála, dómsmála, sem seint og jafnvel kannski aldrei mun gróa um hvers vegna eru til komin og hverjum er að kenna. Það skiptir svo miklu máli fyrir Ísland sem samfélag að geta fúnkerað áfram í friði og spekt með þá vissu að tekið hafi verið með sanngjörnum hætti á öllum þessum málum. Það er ekki verið að gera slíkt meðan almenningur er látinn bera þann forsendubrest alhliða og honum er ekki deilt.