139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[15:51]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að heyra að við erum sammála um meginefni frumvarpsins og um það sem er athugavert við það. Ég mun að sjálfsögðu sem áheyrnarfulltrúi í allsherjarnefnd, ég reikna með að frumvarpið fari þangað, beita mér fyrir þessum breytingum og vænti þess að fá liðsinni stjórnarliða í því. Þetta er ríkisstjórnarfrumvarp og hæstv. ráðherra hefur lýst því að hugsanlega þurfi að gera á því einhverjar breytingar. Vonandi ná þær fram að ganga. Ef breytingarnar ná fram að ganga, þ.e. ef hægt er að þrengja skilyrðin sem þarf til þess að hægt sé að rifta fyrningu, þá er hér um gott mál að ræða sem ég mun styðja með ráðum og dáð alveg til enda.