139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[16:08]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Afstaða mín til þessa frumvarps kom fram fyrr í dag í umræðum, en ég fagna því auðvitað hversu góðan hljómgrunn málið fær meðal hv. þingmanna. Ég fagnaði sérstaklega ræðu hv. þm. Þórs Saaris áðan, sem ekki er enn þá orðinn hæstvirtur, og mér finnst, eins og ég hef stundum sagt við hv. þingmann, að hann flytji bestu ræður sínar eftir klukkan þrjú á daginn. Sú sem hann flutti áðan var snöggtum skárri en sú sem hann flutti fyrr í dag, vegna þess að hv. þingmaður kom í ræðustól með hið rétta hugarfar. Hið rétta hugarfar felst í því að taka vel frumvarpi eins og þessu sem borið er fram af góðum huga og gert til þess að svara ákveðnu vandamáli með hliðsjón m.a. af málflutningi hv. þm. Hreyfingarinnar. Öll mannanna verk eru umdeilanleg. Það er þetta frumvarp líka eins og öll önnur frumvörp sem menn leggja fyrir. En það er hlutverk þingsins að fara yfir það, finna á því skafankana og skera þá af ef hægt er.

Margir hafa bent á í umræðunni að hæstv. ráðherra hafi sagt að það séu tiltekin skilyrði sem liggja því til grundvallar að hægt sé að rjúfa fyrningarfest. Þau skilyrði segja hv. þingmenn að komi ekki fram í greinargerð með frumvarpinu. Það kann vel að vera, en hins vegar kom fram í máli hæstv. ráðherra fyrr í dag að þá þyrftu skilyrðin að tengjast t.d. saknæmu athæfi eða ámælisverðum verknaði. Hv. þingmenn, bæði formaður Sjálfstæðisflokksins og formaður Hreyfingarinnar, hvor af sínum væng stjórnmálanna, hafa gagnrýnt þetta. Ég tel það algjörlega eðlilegt af hálfu þeirra. Þetta er eitt af þeim málum sem þingið þarf að skoða rækilega og komast að niðurstöðu um.

Hæstv. ráðherra sagði það vera skýrt að þetta væri einungis í undantekningartilvikum. Þá hafa menn blessan hans til þess að afmarka málin með þeim hætti í meðförum þingsins að svo verði.

Ég segi það hreinskilnislega, ég held að hæstv. dóms- og mannréttindaráðherra eigi aldrei eftir að flytja frumvarp, þótt hann verði hundgamall og grár ráðherra, sem er jafnsögulegt og merkilegt og það frumvarp sem hér er verið að flytja. Það brýtur algjörlega í blað. Það skiptir gríðarlega miklu máli fyrir mjög marga, ekki bara út af þeim efnahagslegu þrengingum sem við höfum gengið í gegnum sem þjóð. Það liggur fyrir að það er fullt af fólki, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal benti á áðan, sem á umliðnum árum hefur lent í gjaldþroti og hefur verið ýtt niður fyrir yfirborð hagkerfisins, fólk sem neyðst hefur til að lifa á jaðri hins mannlega félags vegna þeirra afleiðinga sem felast í því að lenda í gjaldþroti. Hversu margir þeirra hafi ekki komið og knúið á hjá okkur þingmönnum, a.m.k. hjá okkur sem erum búin að vera hér í 20 ár? Hversu margir — af því hv. þm. Pétur H. Blöndal nefndi þá sem lent hafa í gjaldþroti og hafa skuldað meðlög? Þessir menn eru hundeltir allt sitt líf. Þeir fá aldrei stundlegan frið. Þeir geta aldrei komið upp á yfirborðið og eina leið þeirra til þess að lifa af í samfélagi okkar er að vinna í hinu svarta hagkerfi. Þeir borga ekki skatta og þeim líður illa. Við vitum það vel því að það liggja fyrir kannanir um hver afdrif þeirra verða.

Á því reynum við að taka með frumvarpinu. Að stytta frestinn niður í tvö ár finnst mér stórkostlegt. Sú yfirlýsing hæstv. ráðherra að segjast ætla að gera það, er útrétt sáttarhönd til þingsins. Svo geta menn komið hér og rifið sig niður í rass, eins og stundum gerist þegar búið er að fara í gegnum vinnuna, ef menn eru þá enn óánægðir. En ég tel að allt sem hæstv. ráðherra hefur sagt hér í dag sé mjög jákvætt. Það hnígur allt í sömu átt og menn hafa verið að fikra sig, þ.e. að taka afstöðu með þeim sem skulda. Það er það sem við erum að gera.

Það er fjöldi manns sem eygir ekki von við núverandi aðstæður. Þetta gefur mönnum þó von til þess að geta fótað sig aftur í því velferðarkerfi sem ríkir þrátt fyrir allt á Íslandi. Kerfi okkar er einfaldlega þannig að þótt menn falli til jarðar og lendi á grýttri jörðu geta þeir alltaf náð sér upp aftur svo fremi sem næg atvinna er í landinu og það er það sem við ætlum að taka höndum saman um að afla líka. En með þessu frumvarpi, ef okkur tekst sameiginlega í þinginu að gera það þannig úr garði að þeir sem gagnrýna úr mismunandi áttum verða þokkalega ánægðir, eru menn komnir með tæki í hendurnar sem gerir samfélaginu kleift að kippa þeim sem misst hafa fótanna aftur á fætur. Það skiptir gríðarlega miklu máli að það sé gert.

Ég er auðvitað ekki á móti því að þingið taki sér tíma til þess að skoða frumvarpið, en skiptir það einhverju sérstöku máli hvernig er verið að gera þetta í öðrum löndum? Skiptir máli hvernig það er gert í Bandaríkjunum eða í Skandinavíu? Bandaríkin og Skandinavía hafa ekki gengið í gegnum það hrun sem við höfum gengið í gegnum sem þjóð. Hér eru allt aðrar aðstæður en var t.d. í fjármálakreppunni á Norðurlöndunum í byrjun 9. áratugarins. Ég held að það skipti engu máli varðandi framgang málsins þótt menn skoði í tætlur hvernig kerfið er annars staðar.

Ég vil líka leggja áherslu á að ég tel að löggjöf sé ekki einhver föst stærð. Hún verður alltaf að taka mið af aðstæðum hverju sinni. Aðstæðurnar breytast og sérstaklega hjá okkur í því efnahagsumhverfi sem núna er. Það getur vel verið að eftir fjögur ár komi í ljós að frumvarpið hafi kannski gengið of langt í einhverjum efnum, menn laga það þá bara ef þingið kemst síðan að þeirri niðurstöðu. Það kann vel að vera rétt hjá formanni Sjálfstæðisflokksins að í þessu felist einhver hvati fyrir einhvern hluta samfélagsins til þess að láta allt dankast og láta skera af sér skuldahala með því að fara í gjaldþrot. Ég hef samt ekki trú á því. Ég er algjörlega sammála hv. þm. Þór Saari hvað þetta varðar, það er ekki hægt að bera saman greiðsluaðlögun þar sem menn verða hugsanlega lausir við skuldaklafann eftir þrjú ár eða gjaldþrot eftir tvö ár. Það er bara ekki hægt að bera það saman. Við vitum vel að það að fara í gegnum gjaldþrot hefur oft og tíðum ólýsanlegar afleiðingar fyrir andlega líðan fólks. Það er enginn hvati sem felst í frumvarpinu á meðan munurinn á því og greiðsluaðlögun er ekki nema eitt ár og þótt hann væri þrjú eða fjögur ár þá dreg ég í efa að það vægi það upp.

Ég tel þess vegna að hér séum við að leggja saman á ekkert mjög erfiðan sjó. Ég held að það eigi að vera hægt að ná sameiginlegri lendingu. Hv. þingmenn hafa talað um það á síðustu vikum að nauðsynlegt sé að þingmenn stjórnar og stjórnarandstöðu taki höndum saman til þess að finna leiðir út úr þeim vanda sem fjöldi fólks er staddur í. Þetta er ein leið og þingmenn verða einfaldlega að rífa sig á hárinu ef ekki vill betur upp úr því díki svartagalls sem mér finnst standa upp úr þeim, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, og vinna saman að þessu máli. Ég held að þetta opni svo mikilvæga leið fyrir mjög marga sem eiga í erfiðleikunum.

Þakka ég að lokum hæstv. ráðherra fyrir að hafa komið svona skjótt með þetta mál. Þó að menn finni á því einhverja skafanka er það bara verkefni þingsins að skilgreina þá og lagfæra.