139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[16:16]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra ræðuna og það gleður mig að heyra að við erum að mörgu leyti sömu skoðunar á þeim skafönkum sem við teljum vera á þessu frumvarpi. Það er alveg rétt að það eru atriði í því sem þarf að bæta og ég hjó líka eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að allsherjarnefnd þyrfti að taka á þessu máli og lagfæra þetta þar. Mig langar bara til að brýna hann í því að hvetja samfylkingarfólkið í allsherjarnefnd til að taka með snöfurlegum hætti á þessu máli.

Þau mál sem komu inn í allsherjarnefnd síðastliðinn vetur mættu oftar en ekki andstöðu hjá þingmönnum Samfylkingar vegna ýmissa ákvæða, en hér er komið í ljós að báðir hæstv. ráðherrar, dómsmála- og mannréttindaráðherra og utanríkisráðherra, telja að það sé á valdi allsherjarnefndar og í raun nauðsyn að gera viðeigandi breytingar á málinu. Það liggur þá nánast fyrir að þeir muni beita sér í þingflokkum sínum fyrir því að það verði gert. Því fagna ég mjög.

Annað atriði sem hefur komið hér fram og ég vil taka undir er að þetta skiptir alveg gríðarlegu máli fyrir hið svokallaða svarta hagkerfi og alla þá sem í því eru og hafa kannski verið í því árum og áratugum saman og geta ekki unnið hlið við hlið með okkur hinum vegna þess að allt er hirt af þeim og kröfur eru endurvaktar á þá nánast endalaust. Það skiptir gríðarlega miklu máli. Það er mikil mannréttindabót og einfaldlega mikil samfélagsbót í því að fá þetta fólk aftur upp á yfirborðið og inn í samfélagið.