139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

gjaldþrotaskipti.

108. mál
[16:18]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég bý við þá tímabundnu fötlun að vera handhafi framkvæmdarvalds og get þess vegna ekki tekið á árinni með hv. þingmanni í allsherjarnefnd. En það hefur margsinnis komið fram í mínu máli að ég tel að það sem hafi lýtt þessa stofnun, löggjafarsamkunduna, síðustu 15 árin sé að hér hefur ríkt mjög harkalegt ráðherraræði. Ég hef fundið það bæði sem þingmaður í stjórnarliði og í stjórnarandstöðu og er með hv. þingmönnum og ráðherrum að reyna að vinda ofan af því. Þingið á að vera sjálfs sín ráðandi. Ég skipa ekki þinginu fyrir, þegar ég kem hingað með mál þá legg ég það á þetta borð og mæli fyrir því, svo eru mínum afskiptum af því lokið.

Ég er þeirrar skoðunar að í svona máli sem varðar hag og heilsu margra þá verði þingmenn af mismunandi pólitískum vængjum með fagþekkingu og sumir, aðrir ekki, með reynslu, að leggja saman höfuð sín, lúbarin sum, og reyna að finna bestu leiðina. Þetta er leiðarvísirinn. Ekkert af því sem hv. þingmenn hafa sagt hér í dag og fundið málinu til ávöntunar hefur ekki með einhverjum hætti verið reifað af hæstv. ráðherra. Þó að það sé ekki að finna í greinargerð er það að finna í framsögu sem líka er lögskýringargagn, en jafnframt geta þingmenn ef þeir svo kjósa ákveðið að tjá þann vilja sem ráðherrann hefur látið koma hér fram með einhverjum hætti í lagaákvæði ef þeir telja að það sé rétt. Ég tel að það sé rétt.

Að öðru leyti fagna ég því að hv. þm. Þór Saari er mér sammála sem hann er því miður allt of sjaldan, en kannski horfir þetta allt saman til betri vegar.