139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[16:27]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um Evrópska efnahagssvæðið, nr. 2/1993.

Tilefni breytinganna sem hér eru lagðar til er að nýrri bókun, sem er bókun 38b, hefur verið bætt við EES-samninginn, þ.e. inn í 117. greinina og meginmál samningsins, en það ákvæði hefur lagagildi hér á landi. Þessi bókun felur í sér samkomulag milli EES-ríkjanna innan EFTA og ESB um áframhaldandi framlög í Þróunarsjóð EFTA næstu fimm árin. Eins og þingmenn vita hafa EES-ríkin innan EFTA frá upphafi vega EES-samningsins innt af hendi fjárhagsleg framlög til þeirra ríkja sem lakast standa efnahagslega. Afstaða Evrópusambandsins er sú að þetta sé óæskilegur þáttur í því að vera hluti af innri markaðnum. Afstaða okkar, þ.e. EES-ríkjanna innan EFTA, hefur jafnan verið sú að leggja áherslu á það að engin lagaleg skuldbinding hvíli á ríkjunum um framlög af þessu tagi. Af því er hér einungis um tímabundna ráðstöfun að ræða.

Þetta er í fimmta sinn sem er samið um þessi framlög og þess vegna ekki í fyrsta skipti sem mál af þessu tagi ber á fjörur Alþingis. Að þessu sinni eins og fyrr kom Evrópusambandið með ákaflega háar kröfur um aukin framlög sem var hafnað af hálfu EES-ríkjanna innan EFTA og af þeim ástæðum og fyrirstöðunni voru þessar viðræður mjög tímafrekar. Fyrir okkur gerði breytt efnahagsástand þetta mál ekki síst miklu flóknara.

Niðurstaða viðræðnanna varð á endanum sú að EES-ríkin innan EFTA féllust á um 30% hækkun framlaga. Sú hækkun verður hins vegar öll borin af Noregi og Liechtenstein. Engin hækkun verður á framlagi Íslands í evrum talið og það hefur verið staðfest í ákvörðun EFTA-ríkjanna innbyrðis um hvernig þessum framlögum skuli skipt. Það er rétt að hafa það hugfast að samhliða þessum samningum hefur samningur við Evrópusambandið um tollfrjálsan innflutning á sjávarafurðum til sambandsins verið endurnýjaður. Þetta er samningur sem varðar heilfrysta síld, karfaflök og humar. Í þessum samningi eru líka fólgnir verulegir hagsmunir fyrir sjávarútveg okkar þar sem útflutningsverðmæti þessa varnings til ESB nemur alls um 3 milljörðum króna á ársgrundvelli og tollurinn sem ella væri greiddur nálægt 200 milljónum á ári. Þetta er til viðbótar þeim almenna ávinning sem þessi atvinnugrein hefur af stöðugum EES-samningi.

Ég legg til, frú forseti, að þegar þessari umræðu sleppir verði málinu vísað til hv. utanríkismálanefndar.