139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[16:32]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Af orðum hv. þingmanns mátti ráða að utanríkisráðuneytið hefði tekið fjármálaráðuneytið miklu haustaki, snúið það niður og pínt til heimildar um að leggja þetta fram. Svo er að sjálfsögðu ekki. Þetta er gert í samráði við fjármálaráðuneytið. Þetta er samningur millum þjóðanna. Hann heitir EES-samningur og ég er viss um að hv. þingmaður hefur heyrt hans getið. Það var reyndar forusta Framsóknarflokksins sem upphaflega barðist fyrir honum þó að á því hafi orðið stundarhlé, eins og við nú vitum. Nú er það að vísu þannig að a.m.k. hluti Framsóknarflokksins vill EES-samninginn áfram en ekki ESB. Þetta er forsenda hans.

Hvað varðar hækkunina vegna stækkunarinnar og aukinna heimilda okkar til innflutnings á svæðið er það í reynd þannig að það eru Norðmenn sem borga þann brúsa að mestu leyti. Þegar menn reikna saman greiðslur þeirra í Þróunarsjóðinn og það sem þeir greiða síðan í tvíhliða sjóðinn millum þeirra og ESB og því er síðan deilt niður á íbúa, kemur í ljós að Norðmenn greiða u.þ.b. 50 sinnum það hlutfall sem Íslendingar greiða miðað við höfðatölu. Þannig er þetta nú.

Við erum partur af þessum samningi, þetta er partur af þeim stoðum sem samningurinn stendur á. Það er hins vegar alveg klárt af Íslands hálfu, og af hálfu EFTA og EES-ríkjanna, og það hefur alltaf verið lögð á það áhersla að hér er ekki um lagaskyldu að ræða. Þetta eru samningar. Það vill svo til að við erum í félagi við EFTA-ríkin en hv. þingmaður hefur sennilega ekki heyrt getið um EFTA, fríverslunarsamtök Evrópu, það væri þá eftir öðru.