139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

Evrópska efnahagssvæðið.

61. mál
[16:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara í hártoganir um það hver fer svangur að sofa á Íslandi og hvort fólk sé ekki farið að falla hér úr hungri. Ég vil bara benda hv. þingmanni, sem er landsbyggðarþingmaður, á að ástandið í Reykjavík er grafalvarlegt. Í hverri einustu viku eru 1.200 manns sem þurfa á mataraðstoð að halda. Sem betur fer hefur enginn látist úr hungri enn þá en vandamálið verður stærra og stærra og sífellt fleiri þurfa að nota þessa aðstoð. Ef hv. þingmaður hefur ekki verið hér í þingsal í dag þegar hv. þm. Þór Saari var að lýsa hér ástandinu og kallaði eftir hjálp frá stjórnvöldum hvet ég hann til að lesa ræðu þingmannsins.

Þjóð sem getur ekki staðið saman í því að allir þegnar þjóðarinnar hafi það gott og lifi mannsæmandi lífi á ekkert erindi í því að hjálpa öðrum þjóðum, það er bara þannig. Við erum að greiða þetta, við höfum skilað okkar framlagi í þessa þróunarsjóði. Nú erum það við sem höfum það skítt, nú erum það við sem höfum ekki fengið endurreisn síðustu 24 mánuði. Það er m.a. stjórnvöldum að kenna. Það kom fram hér í máli þingmanna í dag að þó að fólk þyrfti að leita sér mataraðstoðar væri það ekki á ábyrgð ríkisstjórnarinnar því að sveitarfélögin hefðu framfærsluskyldu með fólki.

Þessi ríkisstjórn er svo sofandi, hún er á svo rangri braut, hún kann ekki að forgangsraða. Við erum búin að kalla eftir því í 24 mánuði, framsóknarmenn, að ríkisstjórnin opni augun og fari að hugsa, forgangsraða og setja fólk í fyrirrúm. Ekki láta reka á reiðanum eins og gert hefur verið, framlengja vandræðaganginn, framlengja lög, gildisákvæði laga, bara til þess að það sé status quo hjá fólkinu.

Við þurfum aðgerðir, við þurfum að rjúfa kyrrstöðuna. Við þurfum nýja ríkisstjórn og nú er komið að því: (Forseti hringir.) Íslendingar eru búnir að fá nóg af þessu.