139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 17/2009 um breytingu á XX. viðauka við EES-samninginn.

82. mál
[17:09]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. forseti hefur þegar lýst tilgangi mínum með því að koma hér upp. Þegar teknar eru ákvarðanir innan hinnar sameiginlegu EES-nefndar geta mál verið með tvennum hætti. Það kann að vera að þau mál sem þar eru ákveðin og ráðin sameiginlega til lykta innan nefndarinnar séu þess eðlis að þau kalli ekki á lagabreytingu. Þá þarf ekki að koma með þau fyrir þingið. Ef þau kalla á lagabreytingu er þess sérstaklega getið og um það fjallað í ríkisstjórninni. Hún veitir síðan fulltrúa Íslands í sameiginlegu EES-nefndinni heimild til að taka ákvörðunina en með stjórnskipulegum fyrirvara. Honum er hægt að létta af með tvenns konar hætti, annars vegar þegar viðkomandi mál kemur til þingsins í formi lagafrumvarps eða þá með þingsályktunartillögu. Sjálfur hef ég jafnan talið að það sé langhreinlegast að gera það með þingsályktunartillögu. Nú hefur hv. Alþingi sett sér starfsreglur um þetta efni sem tóku gildi fyrsta þessa mánaðar. Það er kveðið alveg skýrt á um að það skuli gert með þingsályktunartillögu. Ég er því hér með þessu máli m.a. að óska eftir því að Alþingi samþykki þá breytingu á EES-samningnum sem reifuð er í málinu þannig að aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Í þingsályktuninni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir hönd Íslands ákvörðun nr. 17/2009 og breytir XX. viðauka EES-samningsins en hann fjallar um umhverfismál. Lagt er til að inn í hann verði felld ákveðin tilskipun Evrópuþingsins sem hæstv. forseti las upp áðan og fjallar um umhverfisábyrgð í tengslum við varnir gegn umhverfistjóni og úrbætur vegna þess. Tilskipuninni er ætlað að færa ábyrgð á því umhverfistjóni sem kann að stofnast, yfir á þann sem því veldur, þ.e. þann sem ber ábyrgð á rekstrinum sem kann að valda tjóninu. Henni er þannig ætlað að tryggja að öll atvinnustarfsemi á EES-svæðinu beri sambærilega fjárhagsábyrgð á þeim skaða sem hún kann að valda. Tilskipunin varðar umhverfistjón eða hættu á yfirvofandi umhverfistjóni vegna atvinnustarfsemi sem er skilgreind í viðauka nr. III við tilskipunina. Þar er um að ræða iðnaðarstarfsemi sem er starfsleyfisskyld vegna þess að hún kann að hafa í för með sér mengunarvaldandi áhrif. Sem dæmi um slíka starfsemi má nefna tilteknar tegundir af orku- og málmframleiðslu, líka starfsemi förgunarstöðva. Ábyrgð rekstraraðila slíkrar starfsleyfisskyldrar starfsemi er hlutlæg, þ.e. að hún er óháð sök viðkomandi rekstraraðila.

Tilskipunin tekur líka til umhverfistjóns af völdum annars konar starfsemi en þeirrar sem er skilgreind í III. viðauka ef tjónið verður á tegundum lífvera eða náttúrulegum búsvæðum sem tilskipunin fellir undir sína vernd og ef rekja má tjónið til mistaka eða gáleysis af völdum viðkomandi rekstraraðila.

Af hálfu okkar, þ.e. EES- og EFTA-ríkjanna, var gerð krafa um þá aðlögun við upptöku gerðarinnar í samninginn að þeir hlutar hennar yrðu undanskildir sem snúa að tilskipunum sambandsins hvað varðar verndun villtra fugla annars vegar og verndun búsvæða hins vegar. Efni þeirra tilskipana fellur ekki undir EES-samninginn og textinn sem helgar þessa aðlögun kemur fram í ákvörðuninni.

Það er ráðgert að tilskipunin verði innleidd með lögum um umhverfisábyrgð. Eins og hv. þingmenn muna þegar þeir lásu ræðu hæstv. forsætisráðherra, sem hún setti í hólf þingmanna, þá fylgdi henni málaskrá. Þar er þetta mál rakið sem eitt af þeim málum sem hæstv. umhverfisráðherra hyggst flytja á því þingi sem nú er hafið.

Áhrifa vegna innleiðingar þessarar tilskipunar mun þá helst gæta hjá þeirri atvinnustarfsemi hér á landi sem undir hennar ákvæði fellur. Sú starfsemi mun bera fjárhagslega ábyrgð á því umhverfistjóni sem hún kann að valda. Hins vegar verður rekstraraðila líka heimilt að kaupa tryggingu vegna kostnaðar af því tagi. Ég verð þó að segja sem fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri tryggingafélags sem ekki er lengur til að slíkar tryggingar hafa aldrei verið til og eru ekki til á þessari stundu. Hins vegar eru galdrar markaðsins slíkir að þegar þessi tilskipun er farin að hafa áhrif er líklegt að fyrirtækin og markaðurinn sjálfur muni búa til slíka tryggingu sem menn geta þá keypt sér. Í því sambandi verður þó að hafa í huga að tilskipuninni er ætlað að hafa fyrirbyggjandi áhrif en þess er vænst að hún muni minnka líkur á því að atvinnustarfsemi leiði til tjóns á umhverfi og fyrirtæki gæti sín þá betur. Ekki er gert ráð fyrir teljandi kostnaði af hálfu hins opinbera í ljósi meginreglu tilskipunarinnar um að rekstraraðili eigi að bera þann kostnað sem leiðir af tjóni eða hættu á tjóni.

Virðulegi forseti. Það er mín einlæg ósk að þegar umræðu um málið lýkur verði því vísað til hv. utanríkismálanefndar.