139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

71. mál
[17:17]
Horfa

Flm. (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar sem er að finna á þskj. 75, 71. mál. Tillagan fjallar um olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Þingsályktunartillagan hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að tryggja að nú þegar verði hafnar markvissar rannsóknir á því hvort olía eða gas finnst á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi. Leitað verði samstarfs við erlenda aðila um rannsóknir eftir því sem við á og við staðarval verði stuðst við fyrri rannsóknir.“

Tillaga þessi var flutt á síðasta löggjafarþingi en hlaut ekki afgreiðslu þá og ekki hefur að mínu mati dvínað þörfin fyrir flutninginn á þessari tillögu, ekki síst í ljósi þeirra áfalla sem yfir hafa dunið. Þó að margir hafi haldið því fram að oft og tíðum væri mikið loft í Þingeyingum hefur nú heldur dregið úr því á síðustu missirum og veitir ekki af því að leita leiða til þess að „gasa þá örlítið upp“ eins og menn hafa stundum sagt.

Þessi tillaga sem hér er borin upp og lögð fram byggir að sjálfsögðu á eldri vinnu. Allt frá 121. löggjafarþingi hefur þetta mál verið rætt öðru hvoru og gengur út á að hefja rannsóknir á því hvort þessar auðlindir er að finna á landgrunni Íslands norðaustur af landinu. Það svæði sem um er að ræða er kallað Tjörnesbeltið og nær frá Skaga um 150 km austur af Öxarfirði og síðan nær það frá ströndum Norðurlands allt að 50 km norður á Kolbeinseyjarhrygg. Þarna hafa verið gerðar nokkrar rannsóknir á undanförnum árum, en aldrei hefur verið unnt að ljúka þeim. Það liggur hins vegar fyrir að fundist hafa merki á þessu svæði um bæði lífrænt gas og efni. Á árunum 2003 og 2004 var sérstök áhersla lögð á Skjálfanda í þessari rannsóknarvinnu en það var mat manna að þær upplýsingar sem þar komu fram væru ekki fullnægjandi. Vísbendingar fundust um olíu í setlögum en meiri líkindi eru til að gas sé þarna að finna.

Bjarni Richter jarðfræðingur hefur skoðað þessi mál mjög ítarlega og hefur m.a. sett fram þær hugmyndir eða óskir og rökstutt þær vel að til þess að fá tæmandi upplýsingar þurfi að gera frekari athuganir á svæðinu. Hans skoðun er hins vegar sú að fyrri rannsóknir hafi sýnt fram á að gas og jafnvel olíumyndandi ferli geti átt sér stað á þessu svæði.

Ég vil nefna það líka að við höfum unnið að því, Íslendingar, að kanna kosti þess og galla að fara í frekari rannsóknir á svokölluðu Drekasvæði. Af ýmsum ástæðum sem óþarfi er að fjölyrða um hafa þær væntingar ekki gengið eftir. Ég bendi á í þessu sambandi að nær okkur stendur, að mínu mati undir þessum kringumstæðum, að horfa til svæðis sem þarna greinir og er kallað Gammurinn sem er þetta Tjörnesbrotabelti. Ég tel einboðið á þessum tímum að við setjum ákveðinn kraft í að koma þeim rannsóknum áfram.

Staðið hafa yfir rannsóknir á gasuppstreymi í Flatey á Skjálfanda og fyrir liggja niðurstöður rannsókna sérfræðinga Orkustofnunar þar að lútandi. Þær styðja enn fremur að þessum rannsóknum verði gefinn meiri gaumur og þeim haldið áfram. Þessu er í rauninni mjög fljótlýst: Það er brýn nauðsyn að ganga til þessa verks. Gríðarlegir hagsmunir eru í húfi. Í rauninni er í mínum huga annað óforsvaranlegt en að ganga úr skugga um hvort við Íslendingar getum átt möguleika á því að nýta auðlindir sem þarna kynnu að vera, en ég vil engu að síður undirstrika að það er lengri tíma verkefni að komast að raun um það.