139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

olíu- og gasrannsóknir á landgrunni Íslands undan Norðausturlandi.

71. mál
[17:22]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég var á sínum tíma olíumálaráðherra og mér er málið hugleikið. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það er nauðsynlegt fyrir Íslendinga að kanna til þrautar allar leiðir til að afla verðmæta.

Nú er það svo að á sínum tíma var tekin meðvituð ákvörðun um að beita frekar atgervi og fjármunum til þess að rannsaka Drekasvæðið. Það var þó á tímum þegar menn höfðu gnógt fjár í íslenska ríkissjóðnum. Á síðasta ári setti ríkissjóður eigi að síður af naumum fjármunum og við erfiðar aðstæður aukið fjármagn í tilteknar rannsóknir á Drekasvæðinu, sem reyndar voru mjög þarfar og gáfu mikilvægar upplýsingar. En er hv. þingmaður, við núverandi aðstæður þar sem úr naumum fjármunum er að spila, þeirrar skoðunar að við eigum líka að setja peninga í Gammsvæðið? Eða telur hann ekki ráðlegra við þessar aðstæður að halda áfram með þær rannsóknir í yfirborðsjarðlögum á Drekasvæðinu sem hugsanlega gætu orðið til þess að gefa lokahnykkinn sem þarf til að laða að alþjóðleg olíufélög til að hefja boranir á Drekasvæðinu? Þetta er erfitt val. Menn standa frammi fyrir því að það er möguleiki á Gammsvæðinu, en menn standa líka andspænis því að það þarf hugsanlega að setja svolítið meira í Drekasvæðið til þess að búa upplýsingarnar þannig úr garði, miðað við þá efnahagslegu óáran sem hefur gengið yfir heiminn, að það virki nægilega aðlaðandi fyrir menn að koma að því.

Svo hvet ég hv. þingmann til þess að beita sér fyrir því að skattalögum um olíuleit verði breytt til þess að hægt sé að slá frekar í gadda líkurnar á því að fá menn og fyrirtæki á Drekasvæðið. (Forseti hringir.)