139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

formleg innleiðing fjármálareglu.

59. mál
[17:37]
Horfa

Flm. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um formlega innleiðingu fjármálareglu við stjórn ríkisfjármála á Íslandi.

Tilgangur reglunnar er að koma ríkisfjármálum í fastari skorður, að fjármálastefnan styðji betur við peningamálastefnuna, að skapa skilyrði fyrir lægri vöxtum á Íslandi til frambúðar, að skapa skilyrði til minni hagsveiflna, minni óvissu og aukins hagvaxtar og að lokum að skapa skilyrði til að krónan geti þjónað sem lögeyrir á Íslandi.

Fjármálareglan felst í því að ríkisútgjöld vaxi ekki meira á ári en sem nemur meðalhagvexti næstliðin tíu ár. Eingöngu verði heimilt að víkja frá þessari reglu í undantekningartilfellum og þá með minnst tveimur þriðju hlutum atkvæða á Alþingi.

Þróun gengis krónunnar undanfarin ár hefur verið með þeim hætti að margir hafa snúist á þá skoðun að eina færa leiðin í gjaldmiðlamálum Íslendinga sé að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Það er röng niðurstaða. Nær sömu skilyrði þurfa að ríkja í efnahagsmálum þjóðarinnar til að evran henti sem þjóðargjaldmiðill og þurfa að vera fyrir hendi til að krónan geti gegnt því hlutverki. Til að evra gagnist Íslendingum sem gjaldmiðill þarf hagstjórnin að vera með þeim hætti að hún sé trúverðug og skapi stöðugleika, annars gæti farið fyrir Íslandi eins og Grikklandi og Írlandi.

Munurinn á þessum tveimur gjaldmiðlum í hagstæðu efnahagsumhverfi er að krónan verður áfram fljótandi, hugsanlega seigfljótandi, og þjónar áfram því hlutverki sínu að aðlaga hagkerfið, en upptaka evru er fastgengisstefna. Fastgengisstefna kallar á að hagkerfið sé lagað að vinnumarkaði sem leiðir oftar en ekki til atvinnuleysis í óáran. Jafnframt eru hagkerfi fljótari að jafna sig ef aðlögun hefur átt sér stað með gengisbreytingum en ef hún tengist vinnumarkaði vegna tregbreytileika launa.

Galli við krónuna og fljótandi gengi er hins vegar eðli máls samkvæmt meiri sveiflur. Þær sveiflur er hins vegar hægt að hemja með réttri hagstjórn og þar með getur krónan þjónað vel sem gjaldmiðill fyrir Íslendinga.

Margir hafa kennt krónunni um þá rússíbanareið sem íslensk peningamálastefna hefur verið í undanfarinn áratug. Þar hafa menn fundið sér rangan sökudólg. Gjaldmiðill allra ríkja endurspeglar undirliggjandi hagstjórn og því er rangt að tala um að tiltekið efnahagsástand sé gjaldmiðlinum að kenna. Nákvæmlega eins og að efnahagsástandið á Grikklandi og Írlandi er ekki hægt að rekja til evrunnar er ekki hægt að rekja ástandið á Íslandi til krónunnar. Gjaldmiðilsvandamál Íslendinga endurspegla þá óstjórn sem hefur verið í efnahagsmálum undanfarin ár, nákvæmlega eins og á Grikklandi og Írlandi.

Til að leysa þann hagstjórnar- og gjaldmiðilsvanda sem Íslendingar búa við er hér lagt til að tekin verði upp formleg fjármálaregla eins og áður segir sem styður við peningamálastefnuna á þann hátt að ekki þurfi að beita vaxtatækjum Seðlabankans á eins afdrifaríkan hátt og verið hefur. Fjármálareglan, eins og áður segir, felst í því að ríkisútgjöld vaxi sem nemur meðalhagvexti undanfarin tíu ár, óháð árferði. Ef þessi regla væri við líði yrði ríkissjóður rekinn með afgangi í góðæri en halla í óáran. Reglan mundi draga úr hagsveiflum og minnka álagið á peningamálastefnuna.

Af rannsókn sem greint er frá í fylgiskjali við þessa þingsályktun má draga þá ályktun að ef reglunni hefði verið fylgt árin 1964–2001 — 2001 markar þann tíma þegar verðbólgumarkmiðið var tekið upp — hefðu hagsveiflur á árunum 1978–2001 orðið um þriðjungi minni en raun varð. Notkun reglunnar hefði haft þjóðhagslegan ávinning í för með sér sem falist hefði í aukinni framleiðslu, minni óvissu, jafnari neyslu og meiri efnahagslegri velferð. Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna að fjármálastefnan styður mun betur við peningamálastjórnina ef reglunni er fylgt og að ekki þyrfti að stunda jafnharða peningamálastjórn og ef hennar nyti ekki við. Vextir Seðlabanka hefðu að öðru jöfnu verið stöðugri og lægri. Þannig sýnir rannsóknin að sveiflur á vöxtum Seðlabankans hefðu getað verið allt að helmingi lægri en raun varð á og þar með sveiflur á gengi krónunnar, sem endurspeglar hve miklu minni óvissa hefði verið fyrir allt atvinnulíf og heimili ef reglunni hefði verið fylgt.

Samanlagt núvirði aukinnar vergrar landsframleiðslu vegna reglunnar þessi ár hefði verið um 1.600 milljarðar kr. Það er rúm landsframleiðsla ársins 2009. Reglan er í fullu samræmi við niðurstöður rannsóknarnefndar Alþingis og ákall sem þingmannanefndin sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis gaf hér fyrir nokkru síðan.

Þrátt fyrir að hér sé lögð til fjármálaregla sem hemur hagsveifluna, léttir álaginu af peningamálastefnunni og lágmarkar þar með sveiflur í gengi, er mikilvægt að undirstrika að endurbæta verður þá peningamálastefnu sem fylgt hefur verið undanfarin ár. Jafnframt þarf að endurskoða lagaumgjörð þá sem umlykur fjármálamarkaðinn.

Nú hlýtur sú spurning að vakna hvernig framfylgja eigi fjármálareglu eins og þeirri sem hér hefur verið sett fram á vettvangi stjórnmálanna. Sagan sýnir okkur að stjórnmálamenn eru tregir til að binda hendur sínar þegar kemur að útgjöldum. Freistingin fyrir ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma til að gefa í í aðdraganda kosninga er mikil. Það eykur líkurnar á endurkjöri. Þá getur þrýstingur frá hagsmunaaðilum orðið stjórnmálamönnum um megn þegar kemur að mótstöðu við útgjaldaaukningu.

Sjóndeildarhringur stjórnmálamanna er oftar en ekki fram að næstu kosningum og því þarf að koma á böndum á þá líkt og þegar Ódysseifur lét binda sig við mastrið til að freistast ekki af söng sírenanna. Nú er kjörið tækifæri til að binda slíkar reglur í stjórnarskrá. Auðvitað þarf þó alltaf að vera svigrúm ef eitthvað óvænt kemur upp á. Hugsa mætti sér að ef reglan sem lýst er hér að framan væri stjórnarskrárbundin þyrfti aukinn hluta þingmanna til að fara á svig við hana, til að mynda þyrfti samþykki tveggja þriðju hluta þingmanna til að víkja mætti frá reglunni.

Undir hvaða aðstæðum þyrfti að víkja frá reglunni? Það er auðséð. Það væri t.d. vegna einhverra stórkostlegra efnahagslegra hamfara, við náttúruhamfarir eða eitthvað annað óvænt. Ef útlit væri hins vegar fyrir að það ætti að brjóta regluna án þess að um einhvers konar ófyrirséð atvik væri að ræða mundi stjórnarandstaðan beina athygli að því að um stjórnarskrárbrot væri að ræða. Þannig mundi pólitískur kostnaður fylgja því fyrir ríkjandi stjórnvöld að brjóta regluna.

Stjórnvöld í mörgum löndum hafa í gegnum tíðina reynt að innleiða reglur sem þessa. Segja má að Maastricht-skilyrðin séu greinar af sama meiði. Þá hafa Þjóðverjar og Svisslendingar gengið svo langt að innleiða í stjórnarskrá sína að ekki megi reka ríkissjóði landanna með halla. Jafnframt hafa mörg ríki Bandaríkjanna innleitt reglu á svipuðum nótum og Þjóðverjar og Svisslendingar. Einnig þarf að tryggja að stjórnvöld geti ekki farið á svig við regluna með því að færa ráðstafanir utan efnahagsreiknings. Því ætti að taka upp að nýju kynslóðareikninga á Íslandi, en þeir varpa ljósi á stjórnvaldsaðgerðir sem leiða til útgjaldabreytinga í framtíðinni.

Ávinningurinn af fjármálareglunni kemur fram í minna álagi á peningastefnuna, eins og áður segir, lægri og stöðugri vöxtum og þar með stöðugra gengi. Þessi stöðugleiki og minni óvissa leiðir aftur til meiri framleiðslu og efnahagslegrar velferðar til langs tíma litið. Reglan leiðir einnig til þess að hægt er að framfylgja Maastricht-skilyrðunum mun betur en ella og þá yrði fyrr hægt að taka upp evru á Íslandi. En það sem meira er um vert, reglan mundi leiða til mun betri hagstjórnar og þar með yrði krónan raunhæfari kostur sem þjóðargjaldmiðill en nú er, því að gjaldmiðill endurspeglar ekkert annað en undirliggjandi stjórn efnahagsmála og væntingar um hana. Ekkert annað.