139. löggjafarþing — 18. fundur,  21. okt. 2010.

fríverslun við Bandaríkin.

95. mál
[18:12]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Frú forseti. Ég tek skýrt fram að ég geri engar athugasemdir við að hv. þingmaður hafi flutt þessa tillögu. Ég sagði í ræðu minni áðan að hún væri jákvæð og ég fagnaði því alltaf þegar þingmenn úr hvaða flokki sem er horfðu til framtíðar.

Sannarlega liggja í þessu tækifæri og vissulega væri gott ef hægt væri að gera slíkan samning. Það sem ég rakti hins vegar er ekki af eigin reynslu heldur það sem embættismenn mínir, sem hafa staðið í þessu í gegnum árin og hafa tengsl við EFTA, hafa tjáð mér. Þeir hafa sagt mér að Bandaríkin hafi á undanförnum árum margsinnis gefið til kynna í viðræðum að þau hafi ekki mikinn áhuga vegna þess að viðskiptahagsmunir séu takmarkaðir. Hverjir eru þá hagsmunir okkar af þessu? Bandaríkin eru mjög mikilvægur útflutningsmarkaður fyrir íslenskar afurðir. Ef við skoðum t.d. árið 2009 þá nam vöruútflutningur til Bandaríkjanna ekki nema 3,9% af heildarútflutningi. Ég veit af því að hv. þingmaður er búinn að skoða þetta mál að hann veit að útflutningur okkar til Evrópusambandsríkjanna var 83,5%. Ég er viss um að þetta er í greinargerð hans, ég hef ekki lesið hana nákvæmlega, en þar sjá menn afstöðu þessara hagsmuna.

Það liggur sem sagt líka fyrir að Bandaríkjamenn hafa tjáð á fundum embættismanna þeirra og EFTA sem sannarlega voru haldnir upp að 2005, ekki síðustu fimm árin, að forsendan af þeirra hálfu væri markaðsaðgangur fyrir landbúnaðarvörur, þar með talið það sem við á Íslandi lítum á í samningum okkar sem viðkvæmar landbúnaðarafurðir. Þegar við segjum „viðkvæmar“ erum við að hugsa til hagsmuna innlends landbúnaðar, þar á meðal kjöts, svo að það komi skýrt fram. Það var sú skýra afstaða Bandaríkjanna varðandi markaðsaðgang fyrir landbúnaðarvörur sem leiddi til þess að ekki hefur verið talið raunhæft af hálfu EFTA-ríkjanna eða Íslands að óska eftir formlegum fríverslunarviðræðum við Bandaríkin.

Ég gat þess að slíkar kannanir eða þreifingar hefðu ekki átt sér stað svo mér sé kunnugt um eftir 2005, en á þeim tíma hefur hins vegar önnur þjóð okkur skyld, Sviss, sem við vinnum með, leitað hófanna um þetta og komist að sömu niðurstöðu. Það var þessi skýra afstaða Bandaríkjamanna varðandi aðgang fyrir landbúnaðarafurðir sem þeir flokka líka sem viðkvæmar sem leiddi til þess að af hálfu Svisslendinga að ekki var talin forsenda til að halda áfram frekari viðræðum.