139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

skuldavandi heimilanna.

[14:07]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég trúi ekki að hæstv. forsætisráðherra komi hingað og kvarti undan því að hún sé innt eftir svörum um það hvað ríkisstjórnin ætlar að gera. Það er rétt sem ráðherrann segir, við vorum saman uppi í Stjórnarráði í gær og mér var sagt að við mundum fá skýrslu í hendurnar eftir helgina. En það er ekki hægt að sætta sig við að hæstv. forsætisráðherra komi hingað upp og kvarti undan því að spurt sé eftir aðgerðum fyrir heimilin. Hún kýs að fara í einhvers konar áróður gegn tillögum Sjálfstæðisflokksins og segir okkur ekki hafa neitt annað fram að færa en að vilja lengja í lánum. Þetta er ekkert nema áróður. Þetta er rangt. Við höfum bent á að það er hægt að létta á greiðslubyrði heimila með því að slá á hana tímabundið gegn lengingu lána en það er bara eitt úrræði sem kemur til góða þeim sem eru ekki að fara í greiðsluaðlögun.

Við erum líka að tala fyrir því að víkka út skilyrði þess að komast inn í greiðsluaðlögun, að hækka neysluviðmiðin, og að farið verði í skattalækkanir. Það kemur öllum heimilum til góða. Við leggjum líka til að fella niður stimpilgjaldið, að þeir sem hafa misst atvinnu (Forseti hringir.) fái hlé frá greiðslum af fasteignalánum. Við erum með fjölmargar tillögur — en hvað er það sem ríkisstjórnin ætlar að gera? Það gengur ekki að gefið sé í skyn að flatar niðurfellingar séu enn þá til skoðunar ef ríkisstjórnin ætlar sér ekkert (Forseti hringir.) með þá lausn mála.