139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samráð við stjórnarandstöðuna.

[14:15]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er rétt, auðvitað byrja menn á því að skoða málið og kanna hvað hinum ýmsu aðilum finnst um það en tvö ár eru liðin. Er ekki forsætisráðherra núna að tala um hluti sem hæstv. forsætisráðherra átti að framkvæma fyrir nærri því tveimur árum? Það er svo undarlegt að við skulum enn og aftur vera komin á upphafsreit í þessu máli.

Hefur hæstv. forsætisráðherra séð kvikmyndina Groundhog Day sem fjallar um mann sem upplifir sama daginn aftur og aftur og aftur? Þannig finnst mér stundum tilveran vera í stjórnmálum hér með þessa ríkisstjórn. Aftur og aftur er maður að upplifa nákvæmlega sama hlutinn, sama hlut og maður upplifði hér fyrir næstum tveimur árum. Þar liggur kannski vandinn, það gerist ekki neitt hjá þessari ríkisstjórn. Það er beðið, það er sett af stað nýtt leikrit og kallað eftir víðtæku samráði. Svo kemur einhver einn og segir: Ég er ekki sammála. Nú, því miður, það eru ekki allir sammála, það er ekkert hægt að gera.

Er ekki komið að því að hæstv. forsætisráðherra taki af skarið, er það ekki hlutverk hæstv. forsætisráðherra?