139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

atvinnuleysi.

[14:19]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég held að hv. þingmaður misskilji aðeins þessi mótmæli sem hér eru fyrir utan ef hann telur að þau beinist einungis að ríkisstjórninni. [Frammíköll í þingsal.] Þau beinast að Alþingi og eru skoðanakannanir til vitnis um það (Gripið fram í: Ríkisstjórninni.) hve mjög virðing Alþingis hefur dalað. (Gripið fram í.) Ég hef ekki séð mikið — núna eru sjálfstæðismenn að setja fram sínar tillögur, 22 þús. störf, segja þeir. Þær vilja auka kvótann um 35 þús. tonn. Það verður fróðlegt að fara yfir það og fá álit Hafrannsóknastofnunar á því. Ég hef lýst því hér hvaða áhrif tillögur þeirra um skattalækkanir munu hafa.

Við höfum sett fram ýmis úrræði í atvinnumálum og það veit hv. þingmaður. Ég fór yfir nokkur þeirra í gær sem eru á döfinni og eru á borði okkar. Við erum í ákveðinni skuldahreinsun inni í bankakerfinu þar sem við erum að beita okkur fyrir því að það verði fókuserað núna á lítil og meðalstór fyrirtæki, tekinn stuttur tími í að skoða skuldaálögur þeirra, hverjum þeirra er hægt að bjarga og hverjum ekki. Ég held að það sé mikilvægt mál til að koma atvinnulífinu á réttan kjöl á ný.

Við höfum talað mjög fyrir því að efla stuðning við nýsköpunarverkefni. Við erum að tala um hugverkafyrirtæki og það hefur verið reiknað út að þar sé hægt að skapa í hvorum geiranum um sig a.m.k. um þúsund störf á ári. Við erum að fara í vegaframkvæmdir upp á 30 milljarða kr. og á lokastigi eru samningar við lífeyrissjóðina í því máli. Stóriðjuverkefnið í Straumsvík er að fara í gang. Við erum í samvinnu við alla stjórnmálaflokkana um grænan hagvöxt og græna atvinnuuppbyggingu og ég vænti þess að það komi verulega mikið út úr því.

Við erum með á borði okkar úrræði sem við munum ræða líka við stjórnarandstöðuflokkana, vinnumarkaðsúrræði fyrir atvinnulausa sem þarf að taka á vegna þess að þar eru mýmörg verkefni (Forseti hringir.) sem er hægt að vinna með atvinnulausu fólki til að koma því út á vinnumarkaðinn. En ég varð ég fyrir vonbrigðum í gær, því miður, vegna þess að stjórnarandstaðan virðist ekki vilja (Forseti hringir.) koma að þessu borði (Gripið fram í.) og það eru mér auðvitað mikil vonbrigði.