139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

atvinnuleysi.

[14:22]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. (Gripið fram í.) Ég vil upplýsa hæstv. utanríkisráðherra um það að ég á hér orðastað við hæstv. forsætisráðherra. (Utanrrh.: Af hverju … hlaupa út?) Það hljóp enginn út, hæstv. utanríkisráðherra. Vandamálið við það samráð sem hæstv. forsætisráðherra talar alltaf um er að hún vill ekki eiga samráð við stjórnarandstöðuna eða fulltrúa atvinnulífsins. (Gripið fram í.) Þar við bætist að þeir sem hafa farið í samráð við ríkisstjórnina hafa verið sviknir.

Sjáið þið stöðugleikasáttmálann, hvað varð um hann? Það var skrifað undir hann af hálfu ríkisstjórnarinnar og blekið var varla þornað á sáttmálanum þegar hann hafði verið svikinn. Það sama má segja um það samráð sem menn reyndu að gera með sér um stjórn fiskveiða. Um leið og sáttatillagan hafði verið samþykkt hljóp ríkisstjórnin frá sáttinni.

Aðalatriðið er að (Forseti hringir.) ríkisstjórnin verður að fara að leggja fram einhverja trúverðuga stefnu um það hvernig við ætlum að koma atvinnulífinu í gang og skapa störf (Forseti hringir.) fyrir fólkið í landinu. Það þýðir ekki fyrir hæstv. forsætisráðherra að spila alltaf sömu plötuna hér aftur og aftur (Forseti hringir.) með sömu atriðunum sem engu skila og þessi mótmæli hér fyrir utan eru til merkis um. (Gripið fram í.)