139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

atvinnustefna ríkisstjórnarinnar.

[14:25]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Hugtakið „kraftaverk“ hefur öðlast alveg nýja merkingu hér í þessari umræðu í dag þegar hæstv. forsætisráðherra kemur upp og líkir efnahags- og atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar við kraftaverk. 22–23 þús. störf hafa tapast á Íslandi á umliðnu einu og hálfu ári. Við greiðum á ári hverju 25 milljarða kr. í atvinnuleysisbætur og hæstv. forsætisráðherra gumar af því að atvinnuleysi sé minna en talið var, en það er reyndar vegna þess að þúsundir Íslendinga hafa flutt úr landi. Væri þá betra ef fólksflutningurinn væri enn meiri og við hefðum minna atvinnuleysi en raun ber vitni? Hæstv. forsætisráðherra verður að fara að horfast í augu við raunveruleikann.

Eins og hér hefur verið nefnt hefur þessi ríkisstjórn einnig svikið aðila vinnumarkaðarins með því að svíkja stöðugleikasáttmálann. Erlend fjárfesting í orkugeiranum, sem hefði getað skapað þúsundir starfa, er óvelkomin og allir vita að Vinstri grænir eru á móti slíkri fjárfestingu og hluti Samfylkingarinnar einnig. (Gripið fram í.) Þar erum við að tala um þúsundir starfa. Ríkisstjórnin hefur gleymt að hlúa að litlum og meðalstórum fyrirtækjum í landinu. Það er búið að stórhækka álögur og gjöld á þessi fyrirtæki og mörg þeirra hafa komist í þrot þess vegna. Og enn á að halda áfram, enn á að hækka skatta á heimili og fyrirtæki.

Ríkisstjórnin sér einfaldlega ekki ljósið í því að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Þess í stað er farið hringinn í kringum landið og boðaður blóðugur niðurskurður í heilbrigðismálum. Það eru boðaðar enn frekari skattahækkanir. Á meðan situr ríkisstjórnin hjá og hefur enga stefnu þegar kemur að atvinnumálum þjóðarinnar, hefur enga stefnu í því að auka verðmætasköpunina. Getur hæstv. forsætisráðherra verið alvara með því að tala um að (Forseti hringir.) ríkisstjórnin hafi unnið eitthvert kraftaverk þegar kemur að þessum málaflokki?