139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

aðgerðir fyrir skuldsett heimili.

[14:33]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Mig langaði að spyrja hæstv. forsætisráðherra að því hvort mögulegt væri að heyra eitthvað fyrir fólkið sem er hér úti, að gefa því einhverja hugmynd um á hvaða vegferð ríkisstjórnin er varðandi brýnar aðgerðir fyrir heimilin.

Mér finnst mjög mikilvægt að gefa fólki von og ég hef virkilega von um að hægt sé að reisa þjóðfélagið aftur upp. Ég vona heitt og innilega að hæstv. forsætisráðherra hlusti á ákallið hér úti og í samfélaginu. Ég vona að farið verði í þannig aðgerðir að fólk þurfi ekki að standa áfram hér úti, aftur og aftur.

Mig langar líka að spyrja hæstv. forsætisráðherra af hverju þau skilaboð komu frá henni — þau orð voru alla vega lögð henni í munn — að við hefðum gengið út af fundi. Það var alls ekki sá veruleiki sem var á fundinum heldur var ákveðið að hittast aftur á mánudaginn. Mér finnst bagalegt þegar svona rangfærslur eru settar fram í fjölmiðli landsins, ríkisútvarpinu og -sjónvarpinu. Það gefur ranga mynd af því sem fram fór á fundinum.

Þá finnst mér mikilvægt að það komi fram að ekki er hægt að greina í sundur, og ræða samvinnu, vandamálin sem fjölskyldur landsins standa frammi fyrir varðandi lánin sín og atvinnumálin. Þetta þarf allt að hanga saman, þetta er allt hluti af sömu myndinni og sama veruleikanum sem fólk stendur frammi fyrir.