139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

aðgerðir fyrir skuldsett heimili.

[14:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að sú sem hér stendur hafi alveg sæmileg völd sem forsætisráðherra þá stýrir hún ekki fjölmiðlum. Hún stýrir ekki fyrirsögnum í fjölmiðlum eða hvernig þeir leggja upp það sem stjórnarandstaða eða ríkisstjórn segir.

Auðvitað var það ekki svo, hv. þingmaður, að ég hefði sagt að þið hefðuð gengið á dyr enda var það ekki svo. (Gripið fram í: Hvað var það þá?) Ég sagði ekki að þið hefðuð gengið á dyr. Ég sagði að það hefði valdið mér vonbrigðum að ekki hefði verið tekið betur í tillögur af stjórnarandstöðunni en raun bar vitni á þessum fundi. Og ég sagði að ákveðið hefði verið að hittast aftur á mánudaginn til að fara yfir stöðuna vegna þess að þeir sem mættu á þennan fund, a.m.k. sumir hverjir, óskuðu eftir því að bera málin undir sitt bakland. Þannig skildum við.

Von fyrir þann hóp sem stendur hér fyrir utan — það er auðvitað undir okkur öllum komið hvort við berum gæfu til þess að vinna úr þeim tillögum sem eru á borðinu í því efni. Þær eru allar á borðinu og hafa allar verið undir. Og ég mun leggja mig alla fram um að hægt sé að ná sátt um þetta. Ég hef nefnt tillögu sjálfstæðismanna sem er lenging í lánum. Þeir tala ekki um flatan niðurfærslu eins og hv. þingmaður hefur gert og hennar hreyfing. Ég hef satt að segja ekki séð mikið af úrlausnum hjá Hreyfingunni í atvinnumálum sem okkur vantar svo sárlega.

Tillaga Hreyfingarinnar er sú að sú sem hér stendur fari til Bessastaða og segi af sér og hér komi utanþingsstjórn, að lýðræðislega kjörin stjórn fari frá og það verði einn maður á Bessastöðum sem handvelji einhverja aðila í utanþingsstjórn til þess að stjórna landinu. Ég er ekki viss um að það muni skila okkur betra velferðarkerfi eða að tekið verði betur á því að ná niður skuldavanda heimilanna með utanþingsstjórn. Ég sakna þess að sjá ekki tillögur Hreyfingarinnar í atvinnumálum sem er forsenda þess að við getum byggt upp velferðarkerfi og komið í veg fyrir (Forseti hringir.) fátækt í samfélaginu. Ég er að bjóða til samstarfs við ykkur og aðra í stjórnarandstöðunni um það.