139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

aðgerðir fyrir skuldsett heimili.

[14:39]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Fulltrúar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eru staddir hér á landi og eru að ræða við ríkisstjórnina í aðdraganda fjórðu endurskoðunar á samstarfi okkar við hann. Auðvitað ber skuldastöðu heimilanna þar mjög á góma vegna þess að það er rætt um hana. Ég mun eiga fund með þessum aðilum á mánudaginn þar sem ég fer yfir stöðuna.

Þeir hafa verið að ræða þetta. Komið hafa fram áhyggjur þeirra af almennri skuldaniðurfærslu sem nái til allra sem eru með einhver húsnæðislán. Þeir hafa áhyggjur af því að það muni skaða efnahags- og fjármálalífið. Ég hef því ekki heyrt það sem hv. þingmaður nefndi. En við munum auðvitað ræða við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um þá niðurstöðu sem við komumst að, vonandi sameiginlega, um hvernig taka eigi á skuldavanda heimildanna. (Forseti hringir.) Ég trúi ekki öðru en við mætum skilningi við því ef við leggjumst öll á eitt um hvernig við viljum taka á þessu máli.