139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

umræðuhefð á þingi.

[14:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Ég vildi leggja til við virðulegan forseta hvort ekki væri þess virði að kanna hvort það megi ekki bara fela Hreyfingunni að segja okkur hvernig við eigum að haga þingstörfum, hvernig við eigum að hafa þingsköpin, vegna þess að Hreyfingin hefur sýnt það og sannað frá því að hún kom á þing að hún sýnir iðulega kurteisi í garð allra þingmanna. [Hlátur í þingsal.] Hún talar vel um samstarfsmenn sína og umræðuhefð Hreyfingarinnar er til hreinnar fyrirmyndar. (Utanrrh.: … utanríkisráðherranum.) Hreyfingin talar líka bara í lausnum, hún gagnrýnir ekki. Jafnframt sýnir Hreyfingin að hún getur mótað hvaða tillögur mega koma inn í þingið en hverjar ekki, hverjar eru tækar en hverjar eru bara til þess fallnar að skapa deilur þannig að Hreyfingin gæti í rauninni lagt línurnar um hvað við megum ræða í þinginu og hvað ekki.

Auk þess vitum við líka eins og hefur komið fram, margoft, að Hreyfingin er eini lýðræðislega kjörni þingflokkurinn á Alþingi. [Hlátur í þingsal.]