139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:04]
Horfa

Flm. (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir að taka vel í þessar tillögur. Það er líka rétt sem hæstv. ráðherra benti á að þegar menn leggja fram tillögur að lausnum þá er ekki svo mikið um það fjallað í fjölmiðlum. Það er nánast eingöngu fjallað um það þegar við tökumst hér á og fyrir vikið verður svipmót þingsins allt annað en það ætti að vera.

Þó að það sé auðvitað eðlilegt að menn takist á um stefnu og áherslur, ég tala nú ekki um á tímum þegar menn hafa svo ólíkar skoðanir á því hvað eigi að gera. En þingsályktunartillaga okkar er tilraun til að draga fram 10 grundvallaratriði sem við teljum að menn eigi þó að geta verið nokkurn veginn sammála um og mér heyrist hæstv. utanríkisráðherra vera það.

Hins vegar get ég ekki tekið undir það með honum að stjórnarandstaðan hafi að einhverju leyti hlaupist frá borðinu í þessu meinta samráði ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu. Hæstv. utanríkisráðherra kallaði mikið fram í áðan um að fulltrúar stjórnarandstöðu hefðu gengið af fundi í gær. (Utanrrh.: Nei, ekki stjórnarandstöðunnar.) Þá er þetta eitthvað sem ég þekki ekki til, ég sleppi því þá að ræða það frekar. Eitt vil ég þó segja um orð hæstv. utanríkisráðherra um mikilvægi samstarfs, við höfum heyrt hvað eftir annað síðustu tvö ár að allir verði að vinna saman eins og ég rakti í ræðu áðan en í hvert einasta skipti þegar kallað hefur verið til samráðs hefur ekkert breyst. Það hefur í raun ekkert tillit verið tekið til tillagna stjórnarandstöðu nema í einu máli og það var í Icesave-málinu. Hvers vegna var það? Það var vegna þess að viðsemjendur Íslendinga, Bretar og Hollendingar, kröfðust þess að íslenska ríkisstjórnin leitaði samráðs við stjórnarandstöðuna. Í öðrum málum hefur þetta bara verið sýning. Og hver er tilgangurinn? Hann er nákvæmlega það sem hver einasti ráðherra og nánast allir stjórnarliðar gera í hverri ræðu, að segja að vandamálin (Forseti hringir.) séu ekki ríkisstjórninni að kenna, þau séu þinginu öllu að kenna. Þetta er frekar leiðinleg staða að vera með ríkisstjórn sem tekur ekki ábyrgð á eigin gjörðum.