139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég er náttúrlega algerlega ósammála því sem hv. þingmaður sagði undir lok ræðu sinnar. Ég hirði ekki um að reyna að aka sök á einhverja aðra, ég veit það einfaldlega að fram undan eru mjög erfið vandamál. Það verður mjög erfitt að finna lausn á þeim og það verður hugsanlega ekki hægt nema með samstarfi allra flokka. Ég er til í það samráð. Ég held að innan þingsins sé að finna margar mjög góðar hugmyndir sem væri hægt að nota til að leysa a.m.k. hluta af þeim vanda en það þarf þá gagnkvæman vilja til að standa saman um að vinna úr því.

Eitt lítið dæmi sem mér finnst jákvætt. Ein af tillögunum sem hér eru t.d. um styttingu fyrningarfrests krafna, það liggur fyrir frumvarp um það hér mjög skylt þeirri hugmynd sem hæstv. dómsmálaráðherra hefur lagt fram. Það var mikil umræða um það í þinginu og sýndist sitt hverjum. Undir þeirri umræðu varð til samstaða um ákveðnar breytingar til að ná fram markmiðum sem bæði ráðherrar, þeir ráðherrar sem tóku þátt í henni, og þingmenn stjórnarandstöðunnar voru sammála um. Hins vegar verð ég auðvitað var við það að hv. þingmanni finnst hann kannski brenndur af fyrra samstarfi og mér finnst eins og hann sé hálfhræddur við að ganga til samstarfs við ríkisstjórnina. Ég ætla ekki að dæma um það hvort hann hafi ástæðu til þess eða ekki en ég er einfaldlega að segja að ég held að samfélagið sé að komast á þann punkt að menn verði að gera þetta.

Ég tek svo undir með hv. þingmanni að það er aldrei sýndur neinn áhugi af hálfu fjölmiðla þegar hlutirnir eru jákvæðir. Dæmi: Þegar Sjálfstæðisflokkurinn lagði fram tillögur sínar í vikunni las ég um þær í miðlum og mér fannst þetta hundómerkilegar tillögur þangað til ég las þær, 40+ á einhverjum vef. En eins og þær voru settar upp í fjölmiðlum var lítið af kjöti þar. Þannig er þetta bara. En í öllu falli tel ég að við þurfum samt að sneiða hjá slíkum keldum og ég tel að menn verði að reyna að vinna saman gagnvart þeim mjög djúpa vanda sem samfélagið stendur frammi fyrir.