139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:20]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að fagna þessari tillögu sem ég tel að sé góðra gjalda verð og mikilvægt að ræða með opnum huga. Ég hef lengi verið áhugamaður um að við setjum á fót samstarfsvettvang allra flokka og hagsmunaaðila um stefnumörkun í efnahags- og atvinnumálum. Það á sér fordæmi í nágrannalöndum okkar, þar tíðkast slíkt og þykir ekki tiltökumál. Það kallar ekki á að menn telji sig fyrir þær sakir þurfa að fara í þjóðstjórn eða breyta út frá fyrirkomulagi í meirihlutastjórn að öðru leyti. Það er einfaldlega eðlilegur samráðsvettvangur þar sem menn ræða hugmyndir og finna á þeim kosti og lesti.

Ég er alveg sammála forseta Alþýðusambandsins í dag um að viðbrögð Sjálfstæðisflokksins við tillögu ríkisstjórnarinnar í gær um samráð virðast benda til þess að flokkurinn telji sig hafa fundið hina einu réttu lausn og sé ekki til viðræðu um annað. En samráð hlýtur að fela í sér að við komum öll að borðinu, hvert með sína skoðun. Þess vegna var málið lagt þannig upp af hálfu forsætisráðherra í gær að um væri að ræða samráð án þess að lagðar væru fram einhverjar útfærðar tillögur sem væru skilyrði af hálfu ríkisstjórnarinnar, við værum einfaldlega tilbúin í opið samráð. Við höfum tillögur og nóg af þeim en við vildum líka mjög gjarnan eiga opið samráð og ræða kosti og lesti á framkomnum hugmyndum annarra.

Ég lít því svo á að í tillögunni sem lögð er fram sé tilboðið um nákvæmlega þetta, opið samráð þar sem allir komi að og við ræðum með opnum huga kosti og lesti á ýmsum hugmyndum. Það er mjög mikilvægt að við gerum það, við skuldum þjóðinni það. Það er ekki forustuleysi að hafa þann hátt á heldur er það eðlilegt verklag í lýðræðisríki. Það er ekki ósamrýmanlegt þingræði á nokkurn hátt og ekki ósamrýmanlegt meirihlutastjórn á nokkurn hátt, eða er ekki þingræði á Írlandi? Er ekki þingræði á Norðurlöndunum? Er ekki þingræði í Þýskalandi? Eru ekki ríkisstjórnir þar almennt myndaðar með meiri hluta í öllum þessum löndum? Jú. Þar tíðkast einmitt svona samstarf og samráð um efnahags- og atvinnustefnu, og það er mjög mikilvægt fyrir okkur til að komast upp úr skotgröfunum, til þess að hætta að gera hvert annað að blórabögglum í umræðu um efnahagsmál og atvinnumál sem allt of mikið hefur borið á.

Í tillögunni eru síðan talin upp um tíu atriði sem eru ekki endilega atriði sem flutningsmenn telja að allir þingmenn eða allir hagsmunaaðilar geti sameinast um. Auðvitað er ólík sýn á ólíka þætti þessara tillagna en þetta er sett fram út frá sjónarhóli Framsóknarflokksins.

Mig langar að eyða nokkrum orðum á einstaka þætti tillagnanna því að þar er snert við mörgum þáttum sem hafa verið í umræðunni og sem er full ástæða til að ræða. Í fyrsta lagi eru hugmyndirnar um almennu skuldaleiðréttinguna. Þær hafa verið ræddar með opnum huga í samráði, og mér fannst mjög sérkennilegt af hv. flutningsmanni að segja áðan að í því fælust óheilindi af hálfu ríkisstjórnarinnar að stilla málum þannig upp að ræða þyrfti almenna skuldaleiðréttingu út frá samkomulagssjónarmiði. Það hefur legið fyrir að almenn skuldaleiðrétting verður ekki gerð með löggjöf nema með því að baka ríkinu bótaskyldu og að ríkið borgaði fyrir hana að lokum. Eina leiðin til þess að hægt væri að finna henni farveg væri samkomulagsgrunnur. Það eru meira að segja fulltrúar Hagsmunasamtaka heimilanna sammála um og ég hef ekki heyrt fulltrúa Framsóknarflokksins í samráði um meðferð skuldavanda heimilanna gera ágreining um það. Forsenda þess að við getum yfir höfuð rætt almenna skuldaleiðréttingu er að um hana sé almenn samstaða og að þeir sem hagsmuna eiga þar að gæta séu sáttir og telji að hún sé góð og skilvirk leið. Um það er svo ýmis ágreiningur sem margoft hefur verið ræddur en er óþarfi að fara út í hér, það bíður betri tíma.

Varðandi vaxtalækkun getur ríkisstjórnin víst stært sig af vaxtalækkun þó að hún sé ákveðin af Seðlabankanum því að forsendur vaxtalækkunarinnar eru sá efnahagslegi stöðugleiki sem ríkisstjórnin hefur náð. Forsenda þess er ríkisfjárlagastefna ríkisstjórnarinnar þar sem algjörlega hefur verið fylgt upp á punkt og prik þeim markmiðum sem við höfum sett okkur í samstarfsáætluninni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og fyrir liggur eindreginn ásetningur okkar að halda áfram þeirri áætlun. Það er mikilvæg forsenda þess að hægt var að lækka vexti yfir höfuð. Hefur ítrekað verið tekið fram í ákvörðunum peningastefnunefndar að agi í ríkisfjármálum og skilvirk efnahagsstefna af hálfu ríkisstjórnarinnar sé forsenda þess að vaxtalækkunarferlið hafi getað gengið fram.

Rætt er um stöðugt verðlag í tillögunni, sem er hárrétt. Það er eitt af því sem við eigum að horfa á núna, verðlagsforsendurnar og lækkun vaxta og verðbólgu gefa okkur færi á því að vænta meira í því efni. Allar skattbreytingar sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrumvarpi núna, samtals upp á 11 milljarða, eru hannaðar út frá því að þær hafi sem minnst verðlagsáhrif í í för með sér þannig að ríkisstjórnin geri sitt sem hún mögulega getur á þeim tímum þegar óhjákvæmilegt er bæði að skera niður og hækka skatta. Við þurfum að fara að vinna okkur út úr þeirri töfrabragðaumræðu að við getum við nú þessar aðstæður, í mesta efnahagsáfalli sem yfir okkur hefur dunið í 80 ár, fundið einhverja töfraleið til þess að forðast að hækka skatta og skera kröftuglega niður í ríkisútgjöldum. Auðvitað þarf að gera hvort tveggja, það vita það allir sem vilja viðurkenna staðreyndir.

Í tillögunni er líka fjallað um framkvæmdir strax. Ég er algjörlega sammála því að það er mikilvægt að allar þær framkvæmdir sem eru í farvatninu fari af stað og ég get fullvissað flutningsmenn um að það stendur ekki á ríkisstjórninni í því efni. Ríkisstjórnin stendur ekki í vegi nokkurra framkvæmda en það er ekki á ábyrgð ríkisstjórnarinnar að tryggja aðgang að orku, ríkisstjórnin getur ekki tryggt að tveir einkaaðilar á markaði nái samkomulagi um verð á orku. Það hlýtur alltaf að vera samningsviðfangsefni þeirra og það er líka þeirra að ljúka því, en ríkisstjórnin leggur ekki stein í götu framkvæmdanna. Það er ómerkilegur spuni sem hefur fengið að lifa allt of lengi, af því að ég veit að hv. flutningsmaður hefur oft áhyggjur af spuna í þjóðmálaumræðunni.

Í 5. og 6. liðnum eru athyglisverð atriði sem lúta að áhættuskiptingu milli lánveitenda og lántaka og eru þar nefnd til sögunnar áhrif verðtryggingarinnar og ábyrgðir. Síðan er fjallað um breytingu á fyrningarfresti krafna í 6. liðnum. Ég held að það sé full ástæða til að ræða um þá hluti í heild. Við höfum gerbreytt umhverfi skuldara að þessu leyti í fyrri útgáfu greiðsluaðlögunarinnar. Í seinni útgáfu greiðsluaðlögunarinnar jukum við enn frekar á tapsáhættu banka, sem og með ábyrgðarmannalögunum þar sem við takmörkuðum mjög beitingu þriðja manns ábyrgða og eins með því að tryggja að markaðsverð fáist alltaf inn á kröfur við nauðungarsölur og nú með frumvarpi um styttri fyrningarfrest við gjaldþrot. Það þurfum við allt að stilla af, með því aukum við stórlega tapsáhættu lánveitenda en við þurfum líka að tryggja eðlilegt samhengi. Við þurfum líka að umbuna þeim sem vilja taka ábyrgð á skuldbindingum sínum í greiðsluaðlögun og greiða allt sem þeir mögulega geta þannig að þeir verði í það minnsta betur settir og þó nokkuð betur settir en þeir sem kjósa að fara í gjaldþrot og láta kröfurnar fyrnast þannig. Þeir sem fara í greiðsluaðlögun og axla þá ábyrgð sem þeir mögulega geta og eru tilbúnir að semja um það eiga að njóta þess að þeir vilji loka sínum málum. Það heildarsamhengi er lifandi vegna þess að við breytum allri þessari löggjöf reglulega, við þurfum að halda því í stöðugu endurmati.

Meðferð banka á rekstrarfélögum er 7. þátturinn. Ég vil upplýsa vegna þess sem þar segir að við höfum lagt þunga áherslu á það við stofnanir sem heyra undir efnahags- og viðskiptaráðuneytið, þ.e. Fjármálaeftirlitið og Samkeppniseftirlitið, að þar verði sérstaklega gætt að því hvernig bankar fara með rekstrarfélög. Vegna tillögugreinarinnar er rétt að upplýsa að Samkeppniseftirlitið hefur sett hámarkstímamörk á þann tíma sem bankar mega eiga rekstrarfélög. Það býður heim þeirri hættu að bankar reki félögin í óbeinu skjóli, komi þeim undir verndarvænginn og gefi þeim sérstaka fyrirgreiðslu. Við erum líka að reyna að vinna gegn slíku og höfum rætt það bæði við Samkeppniseftirlitið og Fjármálaeftirlitið að vera vakandi fyrir því. Ég hef líka rætt það beint við bankastjórnendur og ítrekað ábyrgð þeirra að þessu leyti.

Við höfum líka áhuga á því að auðvelda það að eftirlit Fjármálaeftirlitsins með áhættum banka hvetji þá til hraðrar skuldaúrvinnslu þannig að bankarnir hafi beinlínis hag af því að vinna hratt í úrvinnslu skulda fyrirtækjanna en sjái sér ekki hag í langri bið.

Að síðustu: Ríkisfjármál eru mjög tengd áætlun okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er mjög mikilvægt að við setjum þann fyrirvara í þeirri umræðu að ég er ekki tilbúinn til að fallast á að við breytum í grundvallaratriðum út frá áætluninni með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Hún er stoð okkar, hún hefur verið okkur gríðarlega mikilvægt skjól í viðureign við erlenda kröfuhafa. Hún hefur skapað tiltrú á íslenskt efnahagslíf og er nauðsynleg aðstoð fyrir okkur (Forseti hringir.) við þessar erfiðu aðstæður. Við eigum líka að horfa til þess að allir sem skoðað hafa íslenskt efnahagslíf á síðustu mánuðum (Forseti hringir.) eru sammála um hversu miklum árangri við höfum náð í krafti þessarar áætlunar og hversu góðan grunn hún gerir okkur kleift að leggja fyrir framtíðina.