139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:31]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra byrjaði ræðu sína á nótum sem við þekkjum. Hann talaði sérstaklega um að vandinn í þjóðfélaginu væri sá að Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki vera með í samráði. Ég ætla ekki að fara í leik að diskútera það. Þetta er svo sannarlega túlkun ríkisstjórnarinnar og tengist því sem ég ætla að spyrja um.

Ég spyr hæstv. ráðherra vegna þess að ég trúi því að hann sé sammála um að taka þurfi á ákveðnum málum sem ekki er fjallað um hér. Ég held að hæstv. ráðherra sé sammála því að það væri betra að vinna þetta saman og ná sátt um það heldur en hitt. Hins vegar horfum við á það að núverandi forusta ríkisstjórnarinnar var í minnihlutastjórn og við höfum heyrt forustumenn Framsóknarflokksins lýsa því hvernig það samstarf var. Við þekkjum stöðugleikasáttmálann sem margir komu að. Aðilar vinnumarkaðarins fóru út úr samstarfinu sökum þess að hæstv. ríkisstjórn stóð ekki við sitt. Ég held einnig að enginn sá forustumaður í stjórnarandstöðunni sem ekki hefur komið að samráði ríkisstjórnarinnar hafi ekki lýst því sem leikriti og spuna. Ég held að enginn forustumaður í stjórnarandstöðunni hafi notað önnur orð um það.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji ekki að það sé partur af vandamálinu að það skorti á trúverðugleika hjá forustu ríkisstjórnarinnar þegar hún talar um samráð og samvinnu. Ég vísa hér í skýr dæmi; minnihlutastjórnina, stöðugleikasáttmálann og þegar menn hafa sest niður. Það hafa allir forustumenn stjórnarandstöðunnar talað með sama hætti, kallað það samráð leikrit og spuna.