139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:37]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað erum við tilbúin til samráðs. Í því felst að við erum tilbúin að hlusta á skoðanir annarra og tilbúin að reyna að mætast einhvers staðar. Hv. þingmaður getur ekki bæði gagnrýnt ríkisstjórnina fyrir að vilja ekki samráð og gagnrýnt hana fyrir að koma ekki með tilbúnar lausnir til samráðsins. Við viljum ræða málin með opnum hug. Það er skuldbindingin sem við erum tilbúin að gera. Við viljum ekki vera með fyrir fram ákveðnar lausnir. Það getur vel verið að hv. þingmaður og félagar hans í Sjálfstæðsflokknum hafi fundið sína hillu í lífinu og hafi fundið hinn eilífa sannleik. Við hin erum ekki jafnviss um óbrigðula skynsemi þess að gera út á framtíðina með óljósa drauma eins og mér sýnist sjálfstæðismenn hafa tilhneigingu til að gera. Við viljum samráð, opið samráð, ræða kosti og lesti allra hugmynda. Það er einlægt tilboð. Stjórnmálaflokkar sem ráða ekki við lýðræðislegt hlutverk sitt á örlagatímum, að koma til samráðs á eðlilegum forsendum í samvinnu stjórnar og stjórnarandstöðu, þeir skynja ekki vitjunartíma sinn.