139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:38]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir ræðu hans.

Eitt af því sem við höfum rætt innan Framsóknarflokksins er hugsunin á bak við samvinnu. Það er eitt af því sem ég hef lagt mikla áherslu á. Samvinna þýðir ekkert endilega að allir séu sammála, heldur að menn séu tilbúnir að koma að borðinu, ræða málin og koma með hugmyndir sínar og forsendur en eru ekkert endilega sammála. Það er eitt af því sem við gerum okkur fyllilega grein fyrir á þessum samráðsvettvangi að fólk þarf að koma inn með hugmyndir sínar á grundvelli hugmyndafræði sinnar.

Það er það sem við gerum hér inni í þingi. Við vinnum við það að útdeila gæðum á grundvelli ákveðinnar hugmyndafræði, hugmyndafræði um frelsi og jöfnuð og hugmyndafræði um samvinnu sem við framsóknarmenn tölum um.

Í framhaldi af ræðu ráðherrans vil ég spyrja um skuldaleiðréttinguna. Það hefur mikið verið talað um að ef farið verður í skuldaleiðréttingu eigi að staðgreiða hana og koma til einn, tveir og þrír — debet hér og kredit þar. Hefur ráðherrann íhugað möguleikann á því að í staðinn fyrir að tala um afturvirka leiðréttingu sé rætt um framvirka leiðréttingu? Í staðinn fyrir að við tölum um að færa vísitöluna til baka til ákveðins tíma breytum við henni fram á við. Það hefur þegar verið gert tvisvar sinnum í sögunni. Við höfum breytt vísitölu sem við notum til að reikna út lán. Þegar maður skoðar samanburð á milli þeirra tveggja leiða þá leiðir rannsóknin í ljós að vísitalan sem við vinnum með í dag gefur lægsta höfuðstólinn þrátt fyrir allt. Þarna væri hugsanlegt að breyta því hvernig við reiknum vísitöluna. Það hafa verið færð rök fyrir því að það sé jafnvel innbyggð villa í því hvernig við reiknum hana í dag. (Forseti hringir.) Höfuðstóllinn mundi lækka fram á við en ekki afturvirkt eins og menn hafa rætt.