139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:48]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þjóðstjórn verður að hafa einhver verkefni og sameiginlega sýn. Þá þarf að byrja á því að móta hana. Ég hef ekki alveg áttað mig á hvað hv. þingmaður er í reynd að leggja fram. Er hann að leggja fram þingsályktunartillögu um þjóðstjórn eða er hann að leggja fram þingsályktunartillögu um samráðsvettvang milli stjórnar og stjórnarandstöðu? Ég styð tillögu hans um samráðsvettvang milli stjórnar og stjórnarandstöðu en ég er auðvitað ekki sammála öllum skoðunum hans. Ég er ekki sammála öllum tillögunum í þingsályktunartillögunni enda væri nú annað hvort ef allir 63 þingmenn væru sammála um tíu atriði af þessum toga. Til þess bjóðum við til skoðanaskipta.

Ef hv. þingmaður vill að öðru leyti leggja fram plön um sameiginleg verkefni og verklag er það auðvitað sjálfsagt mál. Það verður þá að vera þannig að menn geti náð samstöðu um það. En það getur auðvitað ekki verið þannig að ríkisstjórninni sé stillt upp gagnvart afarkostum og menn búi til þjóðstjórn á þeim grundvelli og séu þá ósammála í ríkisstjórn frekar en ósammála í þinginu. Ég sé ekki hvað það leysir ef engin samstaða er um efnisatriði mála. Efnisatriðin þarf að ræða.

Ég held við verðum að hætta þessum umkenningaleik. Ég var satt að segja dálítið leiður yfir því að hv. þingmaður, sem ég hef hrósað í bak og fyrir í þessari umræðu, skyldi nota andsvar við mig til að hnýta í fjarstaddan hæstv. forsætisráðherra. Það liggur ekkert nema gott eitt að baki tillögunum sem við höfum lagt fram. Við viljum samráð og lögðum fram tillögur um það í gær. Þeim var ekki vel tekið. Í dag ræðum við tillögu framsóknarmanna um samráð. Fínt. Getum við þá ekki sammælst um samráð? Er það ekki a.m.k. eitthvað sem við getum sammælst um? Eigum við ekki að reyna að loka alla vega þessum þætti umræðunnar og verða sammála um að eiga samráð og setjast niður og sjá hvað það kann að leiða af sér? Leiði það af sér sameiginlega sýn getur vel verið að það kalli á breytt form ríkisstjórnar. Leiði það ekki (Forseti hringir.) af sér sameiginlega sýn þá gerum við það augljóslega ekki.