139. löggjafarþing — 20. fundur,  4. nóv. 2010.

samvinnuráð um þjóðarsátt.

80. mál
[15:51]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nú er ég alveg hættur að skilja upp eða niður í þessari umræðu. Hv. þingmaður leggur fram tillögu um samstarfsvettvang til að ræða tíu atriði. Ég er búinn að fara yfir þau og lít mörg þeirra sömu eða svipuðum augum en við mörg þeirra hef ég líka athugasemdir fram að færa, svona til að byrja með.

Það er alvanalegt og þekkt í öllum nágrannaríkjum okkar að eiga svona opið samráð og það er bara í þessu eintrjánungsmeirihlutaræði Íslendinga (Gripið fram í.) sem það tíðkast ekki. Í öllum nágrannaríkjum okkar þykir eðlilegt að eiga það verklag sem hv. þingmaður leggur fram tillögu um. Ég styð tillögu hans (Gripið fram í.) þannig að ég átta mig ekki alveg á hvert vandamálið er. Ég er sammála því að við setjumst hér niður. Ég ætla auðvitað ekki að skrifa upp á einstakar útfærslur í tillögunum en ég er til í að ræða þetta allt saman. Ég hef gagnrök og mótrök í ýmsum málum. Ég hef líka sett fram þau grundvallarviðmið sem ég legg mesta áherslu á. En við getum auðvitað ekki ákveðið fyrir fram hvort við ætlum að vera sammála um hluti. Verðum við ekki að ræða þá til að (Forseti hringir.) vita hvort við getum náð saman um þá?